Að minnsta kosti fjórir létust, þar á meðal ungbarn, þegar öryggissveitir skutu á mótmælendur í Managva, höfuðborg Níkaragva í gær. Þarlend mannréttindasamtök segja að sveitir ríkisstjórnarinnar hafi látið til skarar skríða gegn námsmönnum sem mótmæltu við háskóla í borginni.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir móður barnsins sem lést að það hafi orðið fyrir byssukúlu lögreglu. Ríkisstjórnin neitar því aftur á móti og kennir glæpamönnum um dauða barnsins sem var átján mánaða gamalt.
Mótmælaalda hefur gengið yfir Níkaragva undanfarna tvo mánuði eftir að ríkisstjórn Daníels Ortega forseta skar niður eftirlaun og almannatryggingar í apríl. Talið er að um tvö hundruð manns hafi fallið í mótmælum.
Viðræður stjórnvalda og stjórnarandstöðunnar um lausn á ástandinu fóru út um þúfur í síðustu viku. Stjórnarandstaðan krefst þess meðal annars að Ortega og eiginkona hans og varaforseti, Rosario Murillo, stígi til hliðar. Ortega hefur verið við völd í ellefu ár og hefur hert tök sín á landinu undanfarin ár.
Ungbarn á meðal látinna í mótmælum í Níkaragva

Tengdar fréttir

Molnar undan stuðningi við forseta Níkaragva
Herinn, kirkjan og frammámenn í viðskiptalífinu hafa fjarlægt sig ríkisstjórn Daniels Ortega forseta eftir harkaleg viðbrögð hennar við mótmælaöldu sem geisar í Níkaragva.

Vopnahlé í Níkaragva
Deilur hafa staðið yfir í Mið-Ameríkuríkinu Níkaragva síðan í apríl síðastliðnum. Nú hafa stríðandi fylkingar samið um vopnahlé

Fleiri mótmælendur skotnir til bana í Níkaragva
Að minnsta kosti þrír mótmælendur voru skotnir til bana í nótt í Managva, höfuðborg Níkaragva.