Katrín segir að hún hafi heyrt í Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir viku og var að vona að hún myndi heyra í henni aftur en það hefur ekki gerst.
Aðspurð hvort rétt sé að samninganefnd ljósmæðra ætli að leggja fram eitthvað plagg á fundinum, svarar Katrín:
„Já við ætlum að leggja fram það sem við höfum áður og kröfur okkar hafa legið ljósar en ætlum að leggja það fram í bundnu máli.“
Þetta eru ekki kröfur sem ljósmæður hafa greint frá áður.

Vonaði að Bjarni sýndi auðmýkt
„Þetta er svosem alveg í anda samningaviðræðnanna hingað til. Þær hafa verið á þessu plani því miður,“ segir Katrín um ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um framgöngu ljósmæðra og tölur sem fjármálaráðuneytið birti í vikunni.„Maður vonaði að fjármálaráðherra myndi sýna auðmýkt á þessu stigi máls og hefði hitt okkur og átt svona lausnamiðað samtal. En þetta voru svörin og það endurspeglar svolítið hvernig samingaviðræðurnar hafa gengið og það skýrir út hvernig það hefur verið.“
Bjarni hefur látið þau ummæli falla að samninganefnd ljósmæðra hafi sjálf talað gegn samningnum sem felldur var. Katrín segir að það sé ekki rétt.
„Viðbrögðin við því eru auðvitað bara maður veit ekki hvað maður á að segja einu sinni því þetta er svo arfavitlaust og gróft að segja svona. Ég er náttúrulega formaður samninganefndar ég kom hvergi nærri kynningu á samningnum og talaði ekki gegn þessum samningi hvergi og tók ekki þátt í vangaveltum á netmiðlum eða annað. Ég veit ekki hvaðan hann hefur svona upplýsingar.“

Öryggi kvenna og barna í hættu
Mjög margir hafa boðað komu sína á samstöðufund og mótmæli fyrir utan Borgartún 21, þar sem fundurinn fer fram klukkan 10. Þar á meðal eru margir verðandi foreldrar sem eru mjög áhyggjufullir yfir ástandinu.Á meðal þeirra sem ætla að ávarpa hópinn til þess að koma líðan og stuðningi með ljósmæðrum í orð eru Oddný Arnarsdóttir verkefnastjóri og tveggja barna móðir, Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir og Ævar Þór Benediktsson leikari, rithöfundur og verðandi faðir.
Hópurinn sem stendur að baki viðburðinum hittist í gær og útbjó skilti en á þeim stendur meðal annars:
„Öryggi kvenna og ófæddra barna er í hættu.“