Erlent

Stórt framfaraskref fyrir samkynhneigða í Hong Kong

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Áfrýjunardómstóll í Hong Kong hefur úrskurðað að samkynja makar skuli njóta sömu réttinda og gagnkynhneigð pör þegar kemur að innflytjendalöggjöf. Þykir þetta stórt framfaraskref fyrir réttindi hinsegin fólks í Hong Kong.

Þrátt fyrir að vera í dag hluti af Kína nýtur Hong Kong takmarkaðrar sjálfstjórnar og lagabálkurinn byggir á lögum fyrrverandi nýlenduherranna í Bretlandi.

Málið varðar tvær lesbíur sem voru í staðfestri sambúð í Englandi áður en þær fluttu til Hong Kong fyrir sjö árum þegar önnur þeirra fékk nýtt starf. Yfirvöld í Hong Kong neituðu að veita hinni konunni atvinnu- og dvalarleyfi á grundvelli sambandsins.

Kæru þeirra var í fyrstu vísað frá en áfrýjunardómstóllinn tók málið loks upp. Í úrskurðinum segir að stjórnvöld geti ekki skýlt sér bak við lagatexta sem tilgreini aðeins gagnkynja hjónabönd.

Engin réttlæting hafi fundist á því að mismuna eftir kyni með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×