Erlent

Dæmd fyrir að hvetja kærastann til sjálfsvígs en ber nú fyrir sig málfrelsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michelle Carter sést hér mæta í dómsal áður en dómur yfir henni var kveðinn upp í ágúst í fyrra.
Michelle Carter sést hér mæta í dómsal áður en dómur yfir henni var kveðinn upp í ágúst í fyrra. Vísir/Getty
Lögmenn Michelle Carter, bandarískrar konu sem hlaut dóm fyrir að hvetja kærasta sinn til að fremja sjálfsvíg, hafa áfrýjað dómnum. Í útdrætti segir að dómurinn hafi brotið á rétti hennar til málfrelsis.

Carter var dæmd í tveggja og hálfs árs fangelsi í Massachusettes-ríki í ágúst síðastliðnum fyrir manndráp af gáleysi. Hún var sakfelld fyrir að hafa hvatt kærasta sinn, Conrad Roy, til að svipta sig lífi árið 2014. Carter eggjaði hann áfram með símtölum og smáskilaboðum en hún var 17 ára þegar skeytasendingarnar áttu sér stað.

Sjá einnig: Ákærð fyrir að hafa hvatt kærastann til sjálfsmorðs: „Þú verður að gera þetta, Conrad“

Eins og áður sagði hafa lögfræðingar hennar nú áfrýjað dómnum og var útdráttur úr áfrýjuninni birtur í lok síðasta mánaðar. Telja lögfræðingar Carter að úrskurður dómarans hafi brotið á rétti hennar til málfrelsis og að smáskilaboðin hefði ekki átt að nota til að sakfella hana.

„Vegna þess að dómarinn dæmdi Carter fyrir það sem hún sagði, eða sagði ekki, en ekki það sem hún gerði, heyrir þetta mál undir málfrelsi samkvæmt fyrstu grein stjórnarskrárinnar,“ segir í útdrættinum.

Ákæruvaldið sagði á sínum tíma að Carter hafi leikið „sjúkan leik“ í aðdraganda sjálfsvígsins auk þess sem hún var sökuð um að hafa sóst eftir samúð og athygli sem syrgjandi kærasta Roy. Hún safnaði meðal annars 2.300 dollurum til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum í minningu hans.

Hluta textaskilaboðanna sem Carter sendi Roy má lesa hér. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×