Fótbolti

FCK tekur fyrirliðabandið af HM-fara fyrir leikinn gegn Stjörnunni

William Kvist er ekki farinn af stað eftir HM.
William Kvist er ekki farinn af stað eftir HM. vísir/getty
Danski miðjumaðurinn William Kvist hefur verið settur af sem fyrirliði FC Kaupmannahafnar í aðdraganda leiksins gegn Stjörnunni í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar sem fram fer á Samsung-vellinum á fimmtudagskvöldið.

Gríski miðjumaðurinn Carlos Zeca, sem kom til FCK frá Panathinaikos í fyrra, er orðinn fyrirliði danska stórveldisins en þetta staðfesti Ståle Solbakken, þjálfari FC Kaupmannahafnar, eftir 3-0 sigurinn á Hobro um helgina.

Zeca hefur borið fyrirliðabandið í fyrstu fjórum leikjum FCK í dönsku úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni í fjarveru Kvist sem var borinn af velli rifbeinsbrotinn á móti Perú á HM og er ekki byrjaður að spila.

Kvist lagði landsliðsskóna á hilluna eftir heimsmeistaramótið en þessi 33 ára gamli miðjumaður hóf meistaraflokksferilinn með FCK og spilaði í dönsku höfuðborginni frá 2004-2011 áður en hann söðlaði um og spilaði með Stuttgart, Fulham og Wigan.

Hann kom aftur heim 2015 og var gerður að fyrirliða en hefur nú verið settur af. Solbakken sagði í viðtali við danska fjölmiðla að engin dramatík væri í kringum ákvörðunina en Kvist baðst undan því að bera fyrirliðabandið á leiktíðinni og varð norski þjálfarinn við því.

FCK kemur í fyrsta sinn til Íslands til að spila Evrópuleik í 22 ár á fimmtudaginn en síðast mætti það Keflavík í hinni sálugu Getraunakeppni Evrópu árið 1996 og vann, 2-1.

Það var fyrsti og eini Evrópuleikur FCK gegn íslensku liðsins til dagsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×