Sveinn Aron Guðjohnsen, framherji Breiðabliks í Pepsi-deild karla í fótbolta, er líklega á leiðinni til ítalska B-deildarliðsins Spezia. Frá þessu er greint á Fótbolti.net.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, staðfestir við Fótbolti.net að viðræður við Spezia eru langt komnar.
Fram kemur í ítölskum fjölmiðlum að Eiður Smári Guðjohnsen, faðir Sveins og markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, hafi skoðað aðstæður í Spezia og verið ánægður með það sem að hann sá.
Sveinn Aron fór vel af stað í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði tvö mörk í fyrsta leik á móti ÍBV en síðan þá er hann aðeins búinn að skora eitt mark í tólf leikjum í deildinni.
Hann byrjaði fyrstu fjóra leiki liðsins og hefur byrjað átta af þrettán en Sveinn hefur verið varamaður í síðustu tveimur leikjum eftir að danski framherjinn Thomas Mikkelsen var fenginn til Kópavogsliðsins.
Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsbakvörður í fótbolta, var á mála hjá Spezia eina leiktíð fyrir fjórum árum síðan.
Sveinn Aron sagður á leið til Ítalíu
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið


Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn


Njarðvík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld
Íslenski boltinn





