Fótbolti

Fertugur Pizarro til Werder Bremen í fjórða sinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aron Jó og Pizarro ræða málin. Þeir verða samherjar á ný á komandi leiktíð
Aron Jó og Pizarro ræða málin. Þeir verða samherjar á ný á komandi leiktíð vísir/getty
Perúmaðurinn Claudio Pizarro er genginn til liðs við Werder Bremen í fjórða sinn á ferlinum en hann er búinn að gera eins árs samning við þýska úrvalsdeildarliðið eftir að hafa leikið með Köln á síðustu leiktíð.

Pizarro verður fertugur í október en hann hefur verið iðinn við markaskorun síðan hann kom í þýska boltann frá heimalandinu undir lok síðustu aldar. Hann er markahæsti útlendingurinn í sögu Bundesligunnar með 192 mörk í 446 leikjum fyrir Bremen, Bayern Munchen og Köln.

Pizarro kom fyrst til Werder Bremen sumarið 1999 og sló í gegn á sínu öðru tímabili með liðinu og var í kjölfarið keyptur til Bayern Munchen þar sem hann lék til ársins 2007 eða þar til hann gerði fjögurra ára samning við Chelsea.

Dvölin á Englandi reyndist hins vegar misheppnuð og skoraði Pizarro aðeins tvö mörk í 21 leik í ensku úrvalsdeildinni á sínu eina tímabili með Chelsea og gekk aftur í raðir Werder Bremen í kjölfarið. Í þetta skiptið lék Pizarro fjögur tímabil með Bremen áður en hann færði sig aftur um set og það aftur til Bayern Munchen.

Pizarro stóð sig ágætlega í hlutverki varamanns hjá þýska stórveldinu frá 2012-2015 eða þar til hann gekk í raðir Bremen í þriðja sinn og þrátt fyrir að vera orðinn 37 ára gamall skoraði 14 mörk í 28 leikjum tímabilið 2015-2016.

Hann yfirgaf svo Bremen enn einu sinni til að spila fyrir Köln á síðustu leiktíð þar sem hann gerði aðeins eitt mark í sextán leikjum en liðið féll úr þýsku úrvalsdeildinni.

Pizarro mun hins vegar spila enn eitt tímabilið í Bundesligunni en Aron Jóhannsson og félagar í Bremen höfnuðu í 11.sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Markahæstur í sögu BremenPizarro mun að öllum líkindum leggja skóna á hilluna að næsta tímabili loknu en hann er goðsögn hjá Werder Bremen og hyggst enda ferilinn hjá félaginu.

Hann er markahæsti leikmaður í sögu félagsins í Bundesligunni með 104 mörk í 206 leikjum en hann er fimmti markahæsti leikmaður Bundesligunnar frá upphafi með 192 mörk og er efstur af þeim sem eru enn að spila. 

Gerd Muller er efstur á þeim lista og í kjölfarið fylgja Klaus Fischer, Jupp Heynckes og Manfred Burgsmuller.

Þá er Pizarro sá elsti til að skora þrennu í Bundesligunni en því meti náði hann í mars 2016 þegar hann gerði þrennu í 4-1 sigri Werder Bremen á Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×