Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa rofið afleggjara við Þjóðveg 1 við bæinn Skál, vestan Kirkjubæjarklausturs, eftir að vatn flæddi upp á þjóðveginn. Með þessu er vonast til að hægt sé að veita vatninu frá og verja þjóðveginn.
Að sögn starfsmanna Vegagerðarinnar er erfitt að segja til um það hvort búast megi við að flæði meira inn á þjóðveginn.
Sérfræðingar Veðurstofunnar telja að nokkrir sólarhringir séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.
Rennsli við Sveinstind hefur farið lækkandi frá því á miðnætti og mælist nú um 1.300 rúmmetrar á sekúndu, þó að líklegt sé talið að raunverulegt rennsli árinnar sé nokkru meira.
Tilkynnt hefur verið um brennisteinslykt á Suðausturlandi, til að mynda í Meðallandi og í Öræfum, en einnig fannst sterk lykt vestan Skaftárjökuls í eftirlitssflugi með Landhelgisgæslunni í gær.


