Innlent

Skutlari grunaður um margvisleg brot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skutlarinn var með áfengi í bílnum sem talið er að hann hafi ætlað að selja.
Skutlarinn var með áfengi í bílnum sem talið er að hann hafi ætlað að selja. Vísir/Getty
Lögreglan hafði hendur í hári svokallaðs skutlara í nótt sem ekið hafði á miklum hraða eftir Kringlumýrarbraut. Í skeyti lögreglunnar kemur fram ökumaðurinn, sem ók fólki gegn gjaldi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi, hafi einnig verið með áfengi í bílnum. Lögreglu grunar að hann hafi ætlað sér að selja áfengið og verður hann því ekki aðeins sektaður fyrir að aka á 107 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst og að skutlast með fólk - heldur einnig ólöglega áfengissölu. Þá segir í skeyti lögreglunnar að hann sé einnig grunaður um fleiri brot, án þess þó að þau séu nefnd sérstaklega.

Nóttin var annars frekar erilsöm hjá lögreglu. Fjöldi ökumanna var stövaður vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna; tveir ökumenn ollu tjóni með háskalegum akstri og bifhjólamaður ók á bifreið og reyndi síðan að stinga af.

Þá rotuðust tveir einstaklingar í gærkvöld. Annars vegar var um að ræða hjólreiðamann sem steypist fram fyrir sig og hins vegar einstaklingur sem fipast hafði í hjólastólnum sínum og datt með hnakkann í gólfið. Báðir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Þá fór þjófur inn í herbergi erlends ferðamanns, sem dvalið hafði á gistiheimili í borginni, og lét greipar sópa. Er hann meðal annars sagður hafa tekið veski ferðamannsins, sem tókst þó að skila þegar lögreglan handtók þjófinn. Hann hefur mátt dúsa í fangaklefa í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×