Innlent

Ekki tókst að staðsetja síma Jóhanns og engin hreyfing hefur verið á bankareikningi hans

Birgir Olgeirsson skrifar
Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante að kvöldi til.
Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante að kvöldi til. Vísir
„Hann er horfinn,“ segir Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, um Jóhann Gíslason sem er saknað á Spáni.

Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante á Spáni að kvöldi fimmtudagsins 12. júlí síðastliðins. Hans hefur því verið saknað í sjö vikur.



Jón S. Ólason segir Jóhann ekki hafa átt pantað far heim til Íslands. Ættingjar hans hafa farið út til Spánar til að grennslast fyrir um ferðir hans en ekkert kom út úr því.

Lögreglan á Íslandi fékk heimild til að kanna síma- og bankagögn Jóhanns. Sú yfirferð skilaði engu. Engin hreyfing hefur verið á bankareikningi Jóhanns frá því hann sást síðast og þá hafa farsímagögn engu skilað. Jón segir að ekki hafi tekist að staðsetja síma Jóhanns öðruvísi en að hann gæfi upp staðsetningu þess efnis að hann væri erlendis.

„Við vitum ekki neitt hvar hann er. Það er í sjálfu sér ómögulegt að segja hvað hefur orðið um manninn,“ segir Jón.

Spænska lögreglan veit af málinu og hefur sent út tilkynningu þar í landi um að Jóhanns sé saknað.

Engin vitni hafa gefið sig fram og engar nýjar upplýsingar borist.

Verður því ekkert frekar gert að hálfu lögreglu nema einhverjar nýjar upplýsingar berist.

Jón segir ekki grun um saknæmt athæfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×