Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum frá Evrópuflugi íslenskra flugrekenda hélt áfram á síðasta ári þrátt fyrir að þeim fækkaði um einn. Losunin jókst um 13,2% frá árinu áður. Þá er hvorki talin með losun erlendra flugrekenda né Ameríkuflug íslenskra félaga.
Fimm íslenskir flugrekendur hafa gert upp losunarheimildir sinar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins en þeim hefur fækkað um einn á milli ára. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 813.745 tonn af koltvísýringsígildum, að því er segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar.
Losunin frá flugferðum Icelandair, Wow Air, Air Iceland Connect, Air Atlanta og Bláfugls nam 13,2% á milli áranna 2016 og 2017. Þar er hins vegar aðeins talin losun sem á sér stað innan evrópska efnahagssvæðisins en ekki Ameríkuflug.
Tölurnar ná einnig aðeins yfir losun íslenskra flugrekenda en ekki þess fjölda erlendra félaga sem flýgur til og frá landinu. Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia fljúga 32 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli.
Sjö rekstraraðilar iðnaðar gerðu einnig upp heimildir sínar og jókst losun þeirra um 2,8% á milli ára. Losun þeirra nam 1.831.667 tonnum af koltvísýringsígildum. Miðað við þær tölur nemur losun frá Evrópuflugi íslenskra flugrekenda nú um 44% af losun frá iðnaði á Íslandi.
Íslenskir flugrekendur juku koltvísýringslosun um rúm 13%

Tengdar fréttir

Ísland þarf að aðlagast áframhaldandi loftslagsbreytingum
Vísindanefnd um loftslagsbreytingar hefur gefið út fyrstu skýrsluna um áhrif þeirra á Ísland í tíu ár. Hún segir umtalsverða þörf á aðlögun hér á landi.