Erlent

Sakar miskunnsömu samverjana um að eyða milljónunum í lúxusvarning

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Johnny Bobbitt, heimilislaus maður sem var miðpunktur milljónahópfjáröflunar bandarísks pars í fyrra, sakar parið, Kate McClure og Mark D‘Amico, um að stela peningunum sem söfnuðust fyrir hann og verja þeim í allskyns lúxusvarning.



Greint var frá málinu á Vísi á sínum tíma en Bobbitt aðstoðaði McClure við að kaupa bensín á bíl hennar er hún varð eldsneytislaus á hraðbraut í New Jersey í Bandaríkjunum seint um kvöld. Bobbit færði McClure ekki aðeins bensínbrúsa í myrkrinu heldur greiddi hann fyrir brúsann með síðustu aurum sínum.

Í kjölfarið ákváðu McClure og D‘Amico að hrinda af stað hópfjáröflun. Ætlunin var að safna fyrir innborgun á íbúð og bíl fyrir Bobbitt, sem er fyrrverandi hermaður og hefur glímt við eiturlyfjafíkn. Söfnunin fór fram úr björtustu vonum og samtals söfnuðust yfir 400 þúsund Bandaríkjadalir, eða rétt tæpar 43 milljónir króna.

Nú hefur Bobbit hins vegar sakað parið um að stela af sér peningnum. Hann heldur því fram að McClure og D‘Amico hafi eytt hluta fjársins í frí, lúxusbifreið og fjárhættuspil.

Þá var ekki keypt íbúð fyrir Bobbitt líkt og honum var lofað heldur fjárfestu McClure og D‘Amico í hjólhýsi handa honum sem stóð á lóð þeirra. Þá keyptu þau notaðan og úr sér genginn jeppling, Bobbitt til afnota. Hann er nú aftur orðinn heimilislaus en bæði hjólhýsið og bíllinn voru tekin af honum.

McClure og D‘Amico bera því fyrir sig að Bobbitt sé eiturlyfjafíkill og því sé það glapræði að afhenda honum peninginn. Þau hafa beðist undan því að birta fjárhagsyfirlit eða reikninga yfir það sem safnaðist í fjáröfluninni. Þá hefur parið jafnframt haldið eftir bróðurpartinum af peningnum. GoFundMe, vefsíðan sem hýsti söfnunina, hóf rannsókn á málinu í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×