Erlent

Heitir peninga­verð­launum og lausn þeim sem frelsa gísla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikillar óánægju gætir meðal Ísraelsmanna með framgöngu stjórnvalda hvað varðar gíslana.
Mikillar óánægju gætir meðal Ísraelsmanna með framgöngu stjórnvalda hvað varðar gíslana. AP/Francisco Seco

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur heitið þeim fimm milljónir dala sem frelsar gísl úr prísund sinni á Gasa. Þá lofar hann því að viðkomandi og fjölskylda hans fái að yfirgefa Gasa og komast í öruggt skjól.

Um er að ræða nýjasta útspil stjórnvalda í Ísrael sem miðar að því að tryggja lausn þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas á Gasa, eftir árásir samtakana á byggðir Ísraelsmanna fyrir meira en ári.

Talið er að um hundrað manns séu enn í haldi Hamas en þar af er fjöldi talinn látinn.

Ísraelsher stendur enn í umfangsmiklum aðgerðum á Gasa og látnum fjölgar á hverjum degi. Á sama tíma eru fjölskyldur gíslanna orðnar örvæntingafullar, eftir margra mánaða áköll til stjórnvalda. Hefur Netanyahu verið sakaður um að forgangsraða eigin pólitísku framtíð fram yfir frelsun gíslanna.

„Ég vil segja við þá sem hafa gíslana okkar í haldi: Þeir sem valda þeim skaða munu gjalda fyrir það. Við munum elta þig uppi og við munum hafa uppi á þér,“ sagði forsætisráðherrann þegar hann ávarpaði hermenn í heimsókn til Gasa.

„Fyrir þá sem vilja leið út: Sá sem færir okkur gísl; við munum finna örugga leið út fyrir hann og fjölskyldu hans,“ sagði Netanyahu einnig og bætti því við að Ísrael myndi að auki greiða fimm milljónir dala fyrir hvern gísl.

Vopnahlésviðræður milli Ísrael og Hamas, með milligöngu annarra, hafa orðið að engu en samningamenn segja vonir uppi um að samkomulag náist um vopnahlé mili Ísrael og Hezbollah í Líbanon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×