Ítalska leikkonan Asia Argento greiddi ungum manni sem sakaði hana um kynferðisbrot fyrir þagmælsku. Argento er ein af andlitum #MeToo-hreyfingarinnar.
Greint er frá málinu í bandaríska dagblaðinu New York Times sem hefur upp úr málsgögnum að ungur leikari að nafni Jimmy Bennett saki Argento um að hafa beitt hann kynferðisofbeldi á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013. Bennett var 17 ára þegar Argento átti að hafa brotið á honum og Argento 20 árum eldri, eða 37 ára.
Argento er sögð hafa greitt Bennett 380 þúsund Bandaríkjadali, eða um 41 milljón íslenskra króna, fyrir að þegja um brotin. Gengið var frá greiðslunni fyrr á þessu ári.

Þá segir jafnframt í umfjöllun blaðsins að ítrekað hafi verið leitað eftir viðbrögðum frá Argento vegna málsins, án árangurs. Á meðal gagna sem blaðið hefur undir höndum er svokölluð „sjálfa“ af Argento og Bennett sem tekin var þann 9. maí 2013 en á henni sjást þau liggja saman uppi í rúmi.
Argento og Bennett fóru með hlutverk mæðgina í kvikmyndinni The Heart Is Deceitful Above All Things árið 2004.
Argento steig fram í fyrra og sakaði kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi árið 1997. Bennett sakaði Argento um kynferðisbrot um mánuði síðar.