Erlent

Parinu fyrirskipað að skila milljónunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Dómari í New Jersey í Bandaríkjunum hefur fyrirskipað bandaríska parinu, sem safnaði um 40 milljónum króna handa heimilislausum manni, að skila manninum peningnum. Maðurinn, Johnny Bobbitt, hefur staðið í deilum við parið undanfarna mánuði og sakað það um að eyða fénu í lúxusvarning.

Dómarinn gaf parinu, Kate McClure og Mark D‘Amico, frest þangað til síðdegis í dag, föstudag, til að millifæra það sem eftir er af peningnum á reikning í umsjón lögfræðings Bobbitts.

Sjá einnig: Sakar miskunnsömu samverjana um að eyða milljónunum í lúxusvarning

Greint var frá því í gær að Bobbitt hefði stefnt parinu fyrir fjársvik á þriðjudag. Hann gerði jafnframt tilkall til hinna 400 þúsund Bandaríkjadala, eða um 43 milljóna íslenskra króna, sem söfnuðust handa honum í GoFundMe-söfnun á netinu.

Haft var eftir D‘Amico á mánudag að um 150 þúsund dalir, 16 milljónir íslenskra króna, væru eftir af peningnum.

Upphaf málsins má rekja til þess að Bobbitt notaði síðustu aura sína til þess að kaupa bensín á bíl McClure er hún varð eldsneytislaus á hraðbraut í New Jersey í Bandaríkjunum seint um kvöld. Í kjölfarið ákváðu McClure og D‘Amico að hrinda af stað hópfjáröflun. Ætlunin var að safna fyrir innborgun á íbúð og bíl fyrir Bobbitt, sem er fyrrverandi hermaður og hefur glímt við eiturlyfjafíkn.

Bobbitt steig þó nýlega fram og sakaði parið um að hafa eytt hluta fjársins í frí, lúxusbifreið og fjárhættuspil. Þá hafi fólkið svikið loforð um íbúða- og bílakaup handa Bobbitt. Parið segir Bobbitt hins vegar hafa eytt öllum pening sem honum var gefinn í eiturlyf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×