Erlent

Stefnir miskunnsömu samverjunum fyrir fjársvik

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Johnny Bobbitt, heimilislaus maður sem var miðpunktur milljónahópfjáröflunar bandarísks pars í fyrra, hefur nú stefnt parinu fyrir fjársvik. Þetta kemur fram á vef BBC. Síðustu vikur hefur Bobbitt sakað parið um að stela af sér peningunum sem söfnuðust fyrir hann og verja þeim í allskyns lúxusvarning.

Bobbitt lagði fram kæru á þriðjudag og sakar þar parið, Kate McClure og Mark D‘Amico, um fjársvik og samsæri gegn sér. Þá vill hann meina að fólkið hafi notað sjóð hans sem sinn eigin „sparigrís“.

Sjá einnig: Söfnuðu milljónum fyrir góðhjartaðan heimilislausan mann



Upphaf málsins má rekja til þess að Bobbitt notaði síðustu aura sína til þess að kaupa bensín á bíl McClure er hún varð eldsneytislaus á hraðbraut í New Jersey í Bandaríkjunum seint um kvöld.

Í kjölfarið ákváðu McClure og D‘Amico að hrinda af stað hópfjáröflun. Ætlunin var að safna fyrir innborgun á íbúð og bíl fyrir Bobbitt, sem er fyrrverandi hermaður og hefur glímt við eiturlyfjafíkn. Söfnunin fór fram úr björtustu vonum og samtals söfnuðust yfir 400 þúsund Bandaríkjadalir, eða rétt tæpar 43 milljónir króna.

Bobbitt steig þó nýlega fram og sakaði parið um að stela af sér peningnum og eytt hluta fjársins í frí, lúxusbifreið og fjárhættuspil. Þá hafi fólkið ekki efnt loforðin um íbúða- og bílakaup en lögfræðingur Bobbitt gerir ráð fyrir því að hann hafi aðeins fengið um 75 þúsund Bandaríkjadali, eða tæpar átta milljónir króna, af því sem safnaðist. Þá neitar parið að gefa út fjárhagsyfirlit eða reikninga vegna söfnunarinnar og hefur borið því fyrir sig að Bobbitt muni verja öllu fénu í eiturlyf.

Gert er ráð fyrir að Bobbitt hljóti áheyrn dómara á morgun, fimmtudag. Þá hóf GoFundMe, vefsíðan sem hýsti söfnunina, rannsókn á málinu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×