Borgarstjórn samþykkti í dag að fela umhverfis-og skipulagssviði að gera tillögu að útfærslu Laugavegs og Bankastrætis sem göngugötur allt árið um kring. Einnig kemur til greina að gera götur í Kvosinni að göngusvæði.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir þetta vera ánægjuleg tímamót þegar hann tilkynnti um ákvörðunina á Facebook síðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram breytingartillögu um að það yrði haft samráð við hagsmunaaðila. Það var á þeim grunni sem tillagan var samþykkt af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
Umhverfis- og skipulagssviði verður auk þess falið að endurhanna umrædd göngusvæði með tilliti til öryggis og vellíðunar gangandi vegfarenda. Auk þess verður sviðinu falið að útfæra skilvirka og örugga vörulosun á göngugötum í samráði við verkefnastjórn miðborgar og hagsmunaaðila.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fagnar þessu og skrifar á Twitter síðu sinni að breytingin sé „súper spennandi.“
Einn af þeim sem fagnar breytingunni sem gerð er í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda er Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi.
Í stöðuuppfærslu á Facebook greinir Gísli frá því að þennan slag hafi hann tekið árlega þegar hann borgarfulltrúi en án árangurs. Hann segir að það hafi verið veruleg andstaða við göngugötur innan Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma.
Hann segir einnig að tilteknir kaupmenn á Laugaveginum hafi beint reiði sinni, vegna umræðunnar, á mjög persónulegan hátt gegn þeim sem stóðu í baráttunni.
Hann segir að breytingin sé mjög í anda nútímans.
„Það er í anda þeirrar þróunar að borgin gefi gangandi og hjólandi aukið rými, dragi úr mengun og skapi falleg og örygg almenningsrými. Miðborg Reykjavíkur er miðborg okkar allra og við þetta verður hún skemmtilegri og betri fyrir okkur öll,“ segir Gísli Marteinn.
Innlent