Fótbolti

Suður-Kórea Asíumeistari - Leikmenn sleppa við herskyldu

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Son í baráttunni í úrslitaleiknum
Son í baráttunni í úrslitaleiknum Getty
Undir 23 ára lið Suður-Kóreu varð Asíumeistari í knattspyrnu rétt í þessu eftir sigur á Japan. Í fararbroddi í liði Suður-Kóreu er Son Heung-min, leikmaður Tottenham. Sigurinn hefur mikla þýðingu fyrir leikmenn Suður-Kóreu en gullið gerir leikmönnum kleift til þess að sleppa við herskyldu í heimalandi sínu.



Suður-Kórea og Japan mættust í úrslitaleik Asíuleikanna í dag. Eftir venjulegan leiktíma var enn markalaust og þurfti því að framlengja leikinn.



Fyrsta mark leiksins kom strax í upphafi framlengingarinnar og var það suður-kóreskt. Lee Seung-woo, leikmaður Hellas Verona á Ítalíu skoraði markið við mikla gleði Suður-Kóreumanna.



Rúmum átta mínútum síðar tvöfaldaði Suður-Kórea forystu sína en það gerðu Hwang Hee-chan, leikmaður Hamburger í Þýskalandi. Son Heung-min lagði upp bæði mörk Kóreumanna.



Japanir náðu að klóra í bakkann fimm mínútum fyrir leikslok en lengra komust þeir ekki. 2-1 sigur Suður-Kóreu staðreynd. Gullið fer því til Suður-Kóreu, en silfrið til Japan. Fyrr í dag vann Sameinaða arabíska furstadæmið sigur á Víetnam í leik um bronsið. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni.



Sigur Suður-Kóreu í dag hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir leikmenn liðsins.



Í Suður-Kóreu er 21 mánaða herskylda sem þarf að ljúka fyrir 28 ára aldur. Íþróttafólk getur komist hjá því að gegna herskyldunni með því að vinna til gullverðlauna á alþjóðlegu móti, líkt og Asíuleikunum.



Með sigrinum í dag sleppur því Son, ásamt öllum öðrum leikmönnum Suður-Kóreu við herskylduna.



Sigurinn er einnig mikið ánægjuefni fyrir Tottenham þar sem Son er í stóru hlutverki hjá félaginu. Hann þarf því ekki að yfirgefa félagið til þess klára herskylduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×