Greint var frá því í vikunni að loka þurfi Bónusversluninni á Hallveigarstíg, einu lágvöruverðsversluninni í Þingholtunum, vegna samruna Haga og Olíufélags Íslands. Búið er að finna kaupanda fyrir fasteignina en ekki hefur fengist uppgefið hvaða starfsemi kemur í stað verslunarinnar.
Verði það ekki lágvöruverðsverslun munu íbúar hverfsins þurfa að bæta 700 metrum við innkaupaferðir sínar, en næsta eiginlega matvöruverslun er í Kjörgarði á Laugavegi. Þá bárust jafnframt fregnir af því að verslunin Kjöt og Fiskur hefði skellt í lás á Bergstaðastræti fyrir fullt og allt. Það er því ekki um auðugan matarinnkaupagarð að gresja fyrir íbúa miðborgarinnar þessi dægrin.
„Þróunin undanfarna áratugi hefur verið á þá leið að þjónusta hérna í miðbænum hefur farið versnandi hvað varðar okkur íbúana,“ segir Benóný, sem búið hefur við Skólavörðustíg í 34 ár. Þannig hafi til að mynda ekkert kjötborð verið í miðborginni frá aldamótum, eða allt þar til Kjöt og Fiskur hóf rekstur árið 2014. Þá lokaði eina fiskbúðin í hverfinu, sem var á Freyjugötu, árið 2013.

„Mér finnst þetta mjög merkilegt. Líka af því að við erum með jafn marga túrista í miðborginni, ef ekki fleiri. Það geta líklega búið um 20 þúsund manns í hverfinu þegar mest lætur og þetta fólk þarf að kaupa í matinn. Mér finnst þetta bara óskiljanlegt.“
Sjá einnig: Ákváðu að loka Bónus á Hallveigarstíg frekar en á Laugavegi
Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er stefnt að því að íbúar þurfi ekki að sækja grunnþjónustu út fyrir hverfin og segir Benóný það sérstaklega mikilvægt í tilfelli miðborgarinnar - „þar sem er gert ráð fyrir því að maður geti gengið. En það er bara ekkert þannig lengur,“ segir Benóný. Margvísleg þjónusta fyrir íbúa miðborgarinnar hafi liðið undir lok á síðustu árum og nefnir Benóný skósmíði í því samhengi. „Guði sé lof fyrir Brynju, annars þyrftum við að sækja alla slíka þjónustu í bíl,“ segir Benóný.
„Ef svo færi þá væri þessi grundvallarhugsun, að fólk búi þétt í miðborginni, farin fyrir bí.“
Ef fer sem horfir verður Bónus í Kjörgarði eina lágvöruverðsverslunin í miðborginni. Búðin er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og oft hefur myndast örtröð í versluninni á háannatímum. „Það veitti því ekkert af því að hafa tvær lágvöruverðsverslanir - og einhverjar sérverslanir eins og fisk- eða kjötbúðir,“ segir Benóný.

Í fyrrnefndu aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir miðborgina er þess getið að „verslun á íbúðarsvæðum miðborgar hafi dregist saman“ en engu að síður hafi hún „burði til að standa undir nafni sem aðalverslunarsvæði íbúa miðborgarinnar." Fjórar leiðir eru lagðar til þess að efla hverfisverslun í miðborginni:
• Styðja hverfisverslun og tengsl íbúðahverfa við verslunargötur miðborgar, m.a. með því að efla hliðargötur.
• Ýta undir götu- og torgsölu með ferskmeti.
• Stuðla að fjölbreyttu framboði nauðsynjavöru sem stenst gæða- og verðsamkeppni.
• Móta stefnu um umfang verslunarkjarna á jaðri miðborgarinnar.
Þá sé jafnframt mikilvægt að tryggja fjölbreytt verslunarhúsnæði, þannig að það henti mismunandi tegundum verslunar og sé sveigjanlegt með tilliti til ytri aðstæðna.