Skoðun

Friðlýsingar á dagskrá

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Náttúra Íslands er einstök og það er okkar að gæta að töfrum hennar. Eitt af því fyrsta sem ég gerði sem umhverfis- og auðlindaráðherra var að setja í gang vinnu við friðlýsingar með Umhverfisstofnun. Í síðustu viku litu dagsins ljós fyrstu tillögurnar að friðlýsingum í svokölluðum verndarflokki rammaáætlunar sem fjallar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Svæðin eru þrjú, öll á miðhálendinu og taka til ákveðinna hluta nokkurra vatnasviða: Hólmsár, Tungnaár, Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu.

Þessi svæði enduðu öll í verndarflokki rammaáætlunar með samþykkt Alþingis árið 2013, auk fleiri svæða sem fara út til kynningar á næstu vikum. Þessar friðlýsingar taka lögum samkvæmt til verndar gegn orkuvinnslu. Enn hafa þessi svæði ekki verið friðlýst og því er með þessu stigið merkilegt skref í sögu náttúruverndar á Íslandi.

Átak í friðlýsingum

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sérstakt átak í friðlýsingum. Auk áðurnefndra friðlýsinga er um að ræða svæði á eldri náttúruverndaráætlunum sem Alþingi hefur einnig þegar samþykkt. Þá er ætlunin að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna. Í þessari vinnu verður lögð áhersla á að horfa til efnahagslegra þátta auk náttúruverndarinnar sjálfrar, en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að rannsókn fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða á Íslandi.

Til eru margir flokka friðlýsinga og mikilvægt að undirstrika að friðlýsingar geta verið margs konar. Flestir friðlýsingarflokkar leggja áherslu á að fólk geti notið útivistar og fræðslu, og á mörgum svæðum eru hefðbundnar nytjar leyfðar, svo framarlega sem þær ganga ekki á gæði náttúrunnar. Einn flokkur friðlýsinga fjallar sérstaklega um svæði í verndarflokki rammaáætlunar og skal friðlýsa slík svæði gagnvart orkuvinnslu. Það á við um þau svæði sem nú hafa verið send út til kynningar. Friðlýsingar eru því komnar ofarlega á dagskrá stjórnvalda.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×