Fótbolti

Kolbeinn: Treysti mér til þess að spila í mesta lagi hálftíma

Henry Birgir Gunnarsson í Saint-Brieuc skrifar
Kolbeinn á hóteli landsliðsins í Saint-Brieuc í gær.
Kolbeinn á hóteli landsliðsins í Saint-Brieuc í gær.
Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson segist vera nokkuð langt frá því að geta spilað fullan fótboltaleik en er meira en til í að koma af bekknum gegn Frökkum á fimmtudag og láta til sín taka.

„Þetta er gríðarlega erfitt verkefni og skemmtilegt. Frakkarnir auðvitað heimsmeistarar og ekki amalegur leikur fyrir okkur til að snúa við erfiðum tveimur leikjum. Þetta er gott tækifæri fyrir okkur að byggja ofan á okkar leik og ná í pínu sjálfstraust,“ segir Kolbeinn en hann kom til móts við íslenska liðið í Saint-Brieuc í gær.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari hefur farið fögrum orðum um Kolbein og mikilvægi hans fyrir landsliðið þegar hann er heill. Þó svo hann hafi fengið gagnrýni fyrir að velja Kolbein þá gerir hann það óhikað því hann segist vera að undirbúa liðið fyrir undankeppni EM sem hefst í mars á næsta ári. Þar ætlar hann að treysta á Kolbein ef hann verður í spilformi.

Kolbeinn er mjög heiðarlegur með það hversu mikið hann treystir sér í að spila. Hann spilaði í 20 mínútur á móti Belgíu í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði og segir að það sé sá tími sem hann treystir sér í þessa dagana.

„Ef Hamrén myndi biðja mig um að spila gegn Frökkum þá myndi ég treysta mér í 20 mínútur til hálftíma. Ég hef ekki spilað meira en það síðustu tvö ár og vil því ekki fara fram úr mér með það. Ef ég fæ tækifæri þá er ég til í að grípa það og hjálpa liðinu. Vonandi setja eitt mark líka.“




Tengdar fréttir

Kolbeinn fær nýjan þjálfara

Kolbeinn Sigþórsson er kominn með nýjan knattspyrnustjóra hjá franska liðinu Nantes. Fyrrum leikmaður félagsins tók við stjórn þess í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×