Ísland beið lægri hlut gegn Sviss á Laugardalsvelli í leik í Þjóðadeildinni í kvöld. Svisslendingar komust í 2-0 með mörkum frá Haris Seferovic og Michael Lang en Alfreð Finnbogason minnkaði muninn með stórkostlegu marki.
Ísland komst nálægt því að jafna í lokin en það tókst ekki og er því enn stigalaust í riðlinum.
Hér fyrir neðan má sjá einkunnagjöf Vísis fyrir leikmenn íslenska liðsins.
Hannes Þór Halldórsson, markvörður 6
Gat lítið gert í mörkunum sem hann fékk á sig, átti þó slaka sendingu í aðdraganda seinna marks Sviss. Átti ágætar vörslur þegar á reyndi.
Hólmar Örn Eyjólfsson, hægri bakvörður 6
Varnarlega var ekki mikið út á hann að setja en sóknarlega ógnar hann lítið enda óvanur bakvarðarstöðunni. Hefur þó stimpað sig ágætlega inn hjá Hamrén í síðustu leikjum.
Kári Árnason, miðvörður 7
Virtist aðeins óöruggur í upphafi en það stóð ekki lengi yfir. Fínt dagsverk hjá Kára sem er leiðtogi sem Ísland saknaði í Sviss og gegn Belgíu.
Ragnar Sigurðsson, miðvörður 6
Var traustur með Kára en átti stundum í vandræðum með að koma boltanum vel frá sér. Stóð þó vel fyrir sínu og hann og Kári vinna vel saman.
Hörður Björgvin Magnússon, vinstri bakvörður 4
Leit ekkert sérlega vel út í mörkum Sviss og í seinna markinu klikkaði hann alveg í dekkingunni. Hjálpaði lítið fram á við og átti einn af sínum slakari leikjum með landsliðinu.
Birkir Bjarnason, miðjumaður 7
Var í vandræðum á miðsvæðinu í byrjun, gekk illa að finna samherja og tapaði boltanum of oft. Vann sig þó ágætlega inn í leikinn og var drífandi þegar Ísland reyndi að jafna undir lokin.
Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður (maður leiksins) 8
Sá leikmaður í liðinu sem ógnaði mest sóknarlega.. Var nokkuð duglegur að finna sér svæði fyrir framan vörnina og komst nálægt því að skora í nokkur skipti.
Rúnar Már Sigurjónsson, miðjumaður 6
Duglegur eins og í undanförnum leikjum og gaf allt sitt í leikinn. Tengdi lítið við Alfreð og Gylfa fyrir framan sig á miðjunni og var of lítið í boltanum.
Jóhann Berg Guðmundsson, hægri kantmaður 7
Sýndi ágæta takta og ógnaði oftast þegar hann fékk pláss úti á kantinum. Skilaði varnarvinunni vel að vanda og sýndi að liðið saknaði hans í fyrri leikjum keppninnar.
Arnór Ingvi Traustason, vinstri kantmaður 4
Komst aldrei almennilega í takt við leikinn og ógnaði lítið á vinstri kantinum. Var kraftlaus og lítið kom út úr því sem hann reyndi.
Alfreð Finnbogason, framherji 7
Skoraði stórkostlegt mark og tók oft ágætis hlaup en vantaði stuðninginn frá fleirum en Gylfa. Það er enginn að fara að taka framherjastöðuna í landsliðinu af honum í bráð.
Varamenn
Rúrik Gíslason 6 (Kom inn á fyrir Arnór Ingva á 68.mínútu)
Kom inn með nokkurn kraft í liðið en var ekkert sérstaklega mikið í boltanum. Barðist þó af krafti þær mínútur sem hann spilaði.
Albert Guðmundsson (Kom inn á fyrir á Rúnar Má á 84.mínútu)
Spilaði ekki nógu lengi til að fá einkunn.
Einkunnir Íslands: Gylfi bestur

Tengdar fréttir

Alfreð: Örugglega flottasta mark sem ég hef skorað á þessum velli
Alfreð Finnbogason sagði að stórkostlegt mark sitt gegn Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld hafi væntanlega verið það flottasta sem hann hefur skorað á Laugardalsvelli.

Sjáðu stórkostlegt mark Alfreðs
Ísland mætir Sviss í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli.