Innlent

„Erum ekki með nógu gott net til að grípa fólk“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Minnst tvö mál eru til rannsóknar hjá lögregluembættum vegna gruns um vinnumansal. Framkvæmdastjóri starfsgreinasambandsins segir óboðlegt að úrræði fyrir fórnarlöm vinnumansals liggi ekki skýrt fyrir og oft endi með því að mál þeirra séu aldrei leyst.
Minnst tvö mál eru til rannsóknar hjá lögregluembættum vegna gruns um vinnumansal. Framkvæmdastjóri starfsgreinasambandsins segir óboðlegt að úrræði fyrir fórnarlöm vinnumansals liggi ekki skýrt fyrir og oft endi með því að mál þeirra séu aldrei leyst. Vísir/Vilhelm
Minnst tvö mál eru til rannsóknar hjá lögregluembættum vegna gruns um vinnumansal. Framkvæmdastjóri starfsgreinasambandsins segir óboðlegt að úrræði fyrir fórnarlöm vinnumansals liggi ekki skýrt fyrir og oft endi með því að mál þeirra séu aldrei leyst.

Fyrr í þessum mánuði voru þrír menn úrskurðaðir í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum vegna gruns um aðild að vinnumansali. Farið var fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þeirra en RÚV greindi frá því í gærkvöldi maðurinn væri grunaður um að hafa flutt tugi manna til Íslands á fölsuðum skilríkjum um tveggja ára skeið. Gerð hafi verið húsleit í íbúð mannsins við Snorrabraut þar sem hópur fólks hafi verið handtekinn og vegabréf haldlögð. Flestum hafi síðan verið sleppt.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ekki viljað veita nánari upplýsingar um málið en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur maðurinn, sem sagður er vera frá Pakistan, reynt að villa á sér heimildir.

Maðurinn var handtekinn við komuna til landsins fyrir um hálfum mánuði síðan. Málið er afar umfangsmikið og er það á viðkvæmu stigi.Vísir/Vilhelm
Þá voru tíu handteknir í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tæpum tveimur vikum og rannsókn þess máls miðar áfram. Einn úkraínsku verkamannanna sem handtekinn var í aðgerðunum er enn í gæsluvarðhaldi en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum gildir til 25. október. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki neitað því að málið sé rannsakað sem mansalsmál.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að því miður sé allt of oft illa haldið utan um fórnarlömb vinnumansals hér á landi á meðan mál eru til rannsóknar.

„Þar stendur nú eiginlega hnífurinn í kúnni því að við höfum ekki nógu góða þekkingu á þessum málum til að í fyrsta lagi skilgreina mansalsfórnarlömb og í öðru lagi að bregðast við. Oft höfum við séð það að fólk er að velkjast á milli félagsþjónusta í ákveðnum sveitarfélögum, fólk hefur ekki verið skilgreint í erfiðri stöðu þannig að við í rauninni erum ekki með nógu gott net til að grípa fólk,“ segir Drífa.

Hætt sé við að fórnarlömb fái aldrei lausn sinna mála.

„Þar af leiðandi erum við að lenda í því trekk í trekk að fólk fellur milli skips og bryggju og fer aftur til síns heima og þar með falla málin oft niðu,“ segir Drífa.

Aðspurð segir hún að það ætti að vera hlutverk ríkisins að sjá til þess að þessir einstaklingar hafi húsaskjól og aðra aðstoð á meðan mál þeirra eru í vinnslu. „Ég er orðin eins og biluð grammafónplata þegar ég er að krefjast þess að það verði aðgerðaáætlun gegn mansali hér á Íslandi, hún er ekki í gildi.“

Þá vanti fleiri úrræði fyrir karla sem eru fórnarlömb mansals.

„Oft hefur konum verið komið í Kvennaathvarfið en því miður þá erum við ekki með neitt karlaathvarf fyrir karlmenn sem lenda í ofbeldi eða brotum á vinnumarkaði,“ segir Drífa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×