Árneshreppsbúar gætu átt þann vafasama heiður, kannski ásamt íbúum Mjóafjarðar fyrir austan, að búa við verstu vegasamgöngur á Íslandi. Og engir þurfa að aka jafn langan malarveg heim til sín eins og þeir á Ströndum, eða 62 kílómetra milli Bjarnarfjarðar og Norðurfjarðar.
Verstur er þó kaflinn um Veiðileysuháls. Þar snýst málið um að rjúfa vetrareinangrun enda búa íbúar hreppsins við þá fáheyrðu stöðu að geta lokast inni í allt að þrjá mánuði á ári.

„Veiðileysuhálsinn er búinn að vera eitthvert olnbogabarn sem aldrei hefur fengið það sem til átti að taka. 2008 var búið að leggja fyrir ákveðna upphæð sem átti að nota og svo átti að koma samskonar upphæð 2009, og þá átti að vinna úr því. 2009, sko!
En þá kom hrunið og allt var skorið niður við trog,” segir Eva.
Svo kom næsta loforð, í samgönguáætlun 2015-2018 var gert ráð fyrir 700 milljónum króna í Veiðileysuháls árið 2016, en þá gerðist heldur ekki neitt.
Og núna er komin samgönguáætlun sem boðar að framkvæmdir hefjist árið 2022.
„Þetta er sko blaut tuska í andlitið á öllu þessu fólki. Alltaf erum við að vona. Við misstum frá okkur unga fólkið í stórum stíl árið 2016, bara út af samgöngunum. Það er alveg pottþétt.
Það fóru þrír ungir bændur héðan árið 2016 og tveir þeirra voru með börn. Það var bara sorgarferli sem við erum ekkert búin að vinna úr ennþá,“ segir Eva.

„Þetta er bara ömurlegt. Það liggur við að maður missi svolítið kjarkinn. Þetta eru algerlega ömurleg skilaboð frá yfirvöldum,“ segir oddviti Árneshrepps.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: