Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps þar sem eggvopni var beitt eftir að áflog brutust út á milli tveggja manna á Geislagötu við útibú Arion banka á Akureyri en það voru vitni sem kölluðu til lögreglu.
Maðurinn sem grunaður er um að hafa beitt eggvopninu yfirgaf vettvang áður en lögreglan mætti en var handtekinn skömmu síðar.
Blóðugur hnífur fannst við húsleit
Þolandi árásarinnar var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar þar sem hann þurfti að gangast undir aðgerð í gærkvöldi. Hann er ekki talinn vera í lífshættu.Vitni voru yfirheyrð í gærkvöldi og húsleit var gerð á heimili geranda en þar fannst blóðugur hnífur.
Lögregla hefur kallað eftir gögnum úr eftirlitsmyndavélum á og í námunda við vettvang árásarinnar.
Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna síðar í dag.