Vél WOW Air á leið frá Keflavíkurflugvelli til Baltimore í Bandaríkjunum var snúið við skömmu eftir flugtak upp úr klukkan fjögur í dag. Ástæðan mun vera bilun í hreyfli vélarinnar.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, segir að um smávægilega vélabilun hafi verið að ræða í flugi WW117.
„Flugstjóri ákvað að snúa við til Keflavíkur af öryggisástæðum áður en haldið er af stað yfir hafið. Flugstjóri er að fylgja réttum verkferlum og flugvirkjar munu skoða vélina áður en hún heldur áfram för sinni til Bandaríkjanna. Farþegar verða upplýstir um gang mála með tölvupósti og smáskilaboðum,“ segir í skriflegu svari Svönu.
F2 hættustigi var lýst yfir á flugvellinum en hættustig ræðst af stærð vélar og fjölda farþega. Björgunarsveitarfólk var í viðbragðsstöðu vegna málsins en útkallið var afturkallað.
Samkvæmt Flightradar24 virðist vélin hafa lent á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan hálf fimm.
Fréttin hefur verið uppfærð.
