Fundur stjórnar OR um skýrsluna hófst klukkan 10 í morgun og stendur enn yfir, að sögn Eiríks. Hann gat ekki sagt til um það hvað fundurinn mun standa lengi. Þá var ekkert hægt að gefa uppi um innihald skýrslunnar að svo stöddu.
Sjá einnig: Niðurstaða kynnt stjórn á allra næstu dögum
Málið má rekja til uppsagnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem var forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar. Einar Bárðarson, eiginmaður hennar, sagði frá því að hann hefði átt fund með forstjóra stórfyrirtækis og greint honum frá óviðeigandi og dónalegri framgöngu framkvæmdastjóra hans. Framkvæmdastjóranum, Bjarna Má Júlíussyni, var síðar vikið frá störfum og þá steig Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, tímabundið til hliðar vegna málsins.
Í kjölfarið óskaði stjórn OR eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð yrði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum OR. Úttektin var að mestu unnin með viðtali við aðila máls og með því að fá gögn úr starfsmannahaldi Orkuveitunnar.
Viðbót klukkan 12:16
Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að blaðamannafundur verði klukkan 15 þar sem niðurstaða úttektar innri endurskoðunar á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum verði kynnt. Fundurinn verður í Rafveituheimilinu í Elliðaárdal, Rafstöðvarvegi 20.
Í forsvari verða:
- Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR
- Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri OR
- Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar