Skoðun

Eitt leyfisbréf fyrir alla kennara er ekki góð hugmynd

Anna Kristín Sigurðardóttir skrifar
Enn og aftur eru leyfisbréf kennara til umræðu og lagt til að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir kennara sem veitir réttindi til að kenna á þremur skólastigum í stað þriggja leyfisbréfa eins og nú er.  Núverandi kerfi er ekki gallalaust, en að gefa út eitt og sama leyfisbréfið fyrir kennara á öllum skólastigum, gengur of langt og er ekki til bóta.  Í þessu sambandi vega þyngst þau rök að það er ekkert í menntunarbakgrunni framhaldsskólakennara sem gefur til kynna að þeir hafi þekkingu til að kenna í leikskóla eða á yngri stigum grunnskóla. Þar má nefna mikilvæga þekkingu svo sem á málþroska barna, læsi eða lestrarkennslu. Að sama skapi er ekkert í menntunarlegum bakgrunni leikskólakennara sem gefur til kynna þekkingu til að kenna ákveðna faggrein eða faggreinar á unglingastigi grunnskóla eða í framhaldsskóla. Þeirra sérhæfing liggur á öðru sviði. Að halda öðru fram er það sama og segja að það sé nóg að hafa háskólagráðu til að kenna á hvaða skólastigi sem er.  Hér er ég að vísa til menntunar kennara eins og hún hefur tíðkast síðustu áratugi, en vissulega er hægt að breyta henni til að hún nái yfir öll skólastig að minnsta kosti að hluta. En þá væri skynsamlegra að byrja á þeim enda.

Í öðru lagi vil ég minna á að gott menntakerfi reiðir sig á hæfni og þekkingu kennaranna sem þar starfa og á síðust áratugum hefur skilningur aukist á því hve flókið og vandasamt starf þeirra er.  Eitt leyfisbréf grefur undan þessari vitund með því að gefa í skyn að sú sérþekking sem fram til þessa hefur verið talin nauðsynleg sé það alls ekki. Faglegt traust til kennarastéttarinnar jafnt sem faglegt sjálfstraust hennar sjálfrar er grundvöllur menntaumbóta. Stefna ber að því að í skólum landsins sé hvert sæti skipað fólki sem hefur bestu fáanlegu þekkingu og hæfni á hverjum tíma til að gegna viðkomandi starfi. Allar aðgerðir sem slaka á kröfum um faglega sérþekkingu ganga í öfuga átt – þar með talið eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.

Í þriðja lagi  er vert að hafa í huga hver tilgangurinn með leyfisbréfum er, annar en að veita ákveðin réttindi. Leyfisbréf er formleg staðfesting á því að viðkomandi hafi aflað sér þeirrar þekkingar og hæfni sem viðkomandi starfssvið krefst. Leyfisbréf leikskólakennara til að kenna í framhaldsskóla væri fölsk staðfesting rétt eins og leyfisbréf framhaldsskólakennara til að kenna í leikskóla. Hvers virði eru slík leyfisbréf?

Meginrökin sem sett eru fram með því að hafa eitt leyfisbréf eru að skólastjórnendur eigi að hafa tækifæri til að velja hæfasta fólkið til starfa. Vissulega eiga þeir að hafa þau tækifæri, en ég vil draga hér fram sem fjórðu rökin gegn einu leyfisbréfi kennara að slíkt fyrirkomulag  getur líka takmarkað svigrúm þeirra til að skipta einum út fyrir annan. Hópur fólks verður með réttindi til að vera í starfi sem það hefur ekki þekkingu til að sinna. Skólastjórnendur væru að sumu leyti betur settir með engin leyfisbréf.

Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eru ólíkar stofnanir sem eiga vissulega margt sameiginlegt. Ekkert er heldur rétt eða rangt í því hvernig nemendur skiptast á þessi skólastig eftir aldri.  Mörg rök mæla með því að leyfisbréf kennara nái yfir mörk skólastiganna að einhverju leyti, t.d. mætti brúa bilið milli leikskóla og yngri barna stigs grunnskóla eða milli unglingastigs og framhaldsskóla.  En eitt leyfisbréf fyrir alla er alltof langt gengið og grefur undan fagmennsku og faglegri ímynd kennarastéttarinnar. Síðast en ekki síst dregur það úr kröfum um þekkingu og hæfni þess hóps sem ætlað er að bera uppi gæði menntakerfisins.

Höfundur er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×