„Engan veginn,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingflokksformaður Miðflokksins í viðtali fréttastofu spurður um hvort hann og þau sem svölluðu á Klaustur bar 20. nóvember, þurfi ekki að íhuga stöðu sína. Hann lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að samfélagið logi vegna upptakna sem gerðar voru á barnum, hvar sex þingmenn Miðflokksins og tveir úr Flokki fólksins komu saman og höfðu uppi harkalega palladóma um samþingmenn sína.
Hefur beðið Bjarna afsökunar á þvælu sinni og lygi
Gunnar Bragi var jafnframt spurður, sem fyrrverandi utanríkisráðherra, út í ummæli þau sem þar hafa komið fram varðandi skipan sendiherra, þeirra Árna Sigurðssonar í Helsinki og Geirs H. Haarde í Washington; að skipan Árna hafi verið hugsuð til að draga athyglina frá skipan Geirs. Og það tókst, að mati Gunnars Braga: „Hann [Árni] fékk á sig allan skítinn.“Í viðtalinu er það nefnt að í utanríkisþjónustunni ríki ákveðnar hefðir um það hvernig staðið er að skipan sendiherra.
„Ég er búinn að biðja formann Sjálfstæðisflokksins afsökunar á þessari vitleysu í mér, þvælu og lygi, sem ég hafði þar uppi. Það eina sem rétt er í þessu er að ég taldi, svo sagt sé alveg satt og rétt frá því, skynsamlegt að skipa þá báða á sama tíma.
Hefði viljað skipa marga aðra stjórnmálamenn
Þegar þú varst að meta það, snérist það þá ekki fyrst og fremst um verðleika mannanna?„Jú, báðir menn hafa að sjálfsögðu fulla verðleika. Og það eru aðrir stjórnmálamenn sem ég hefði gjarnan viljað skipa sendiherra sem eiga fullan, jahhh, hafa fullt til þess að bera. Ég hefði viljað sjá Össur Skarphéðinsson taka að sér verkefni fyrir utanríkisþjónustuna. Hvort sem það væri sendiherra fyrir Norðurslóð eða eitthvað annað. Það býr rosaleg þekking í þessu fólki og það er algjörlega galið að tala þannig að fyrrverandi þingmenn eða ráðherrar eigi ekki að vera sendiherrar.“
Lítur þú þannig á að þú eigir það inni hjá Sjálfstæðisflokknum ef hann er í stöðu til að skipa sendiherra, að þú fáir sendiherrastöðu í náinni framtíð eða síðar?
„Ég á ekkert inni hjá Sjálfstæðisflokknum. Frekar en að Sjálfstæðisflokkurinn á eitthvað inni hjá mér. En, ég held hins vegar að ég gæti vel staðið undir slíku starfi.“