Mótmælin áttu sér stað á breiðgötunni Champs Elysees en forseti Frakklands, Emmanuel Macron, þakkaði lögreglu fyrir fagleg vinnubrögð við að viðhalda friði í borginni.
Sagði hann þá sem réðust gegn lögreglumönnunum mega skammast sín.
Champs Elysees er eins vinsælasta ferðamannagata borgarinnar en þar kveiktu mótmælendur í flutningabíl sem sprakk. Einn mótmælenda réðist gegn slökkviliðsmönnum sem reyndu að ráða niðurlögum eldsins en hann var yfirbugaður af öðrum mótmælendum.

Um átta þúsund mótmælendur gerðu sér ferð niður í miðborg Parísar þar sem lögreglan reyndi að varna þeim för að forsetahöllinni sjálfri.
Alls voru 130 handteknir vegna mótmælanna sem fóru fram í París og víðar um Frakkland.
Eru mótmælendurnir ósáttir við ákvörðun Macrons að hækka gjaldtöku á eldsneyti til að hvetja Frakka til að velja umhverfisvænni samgöngumáta. Ásamt hærri gjaldtöku hafa frönsk yfirvöld boðið upp á ívilnanir til þeirra sem kaupa rafbíla.
Atvinnubílstjórar hafa einnig staðið fyrir aðgerðum á hraðbrautum þar sem þeir hafa komið saman á flutningabílum og hægt á allri umferð ásamt því að setja upp vegatálma til að hindra aðgengi að eldsneytisstöðvum, verslunarmiðstöðvum og verksmiðjum.
Síðastliðna helgi tóku um 300 þúsund manns þátt í mótmælunum út um allt Frakkland. Samkvæmt upplýsingum frá frönskum yfirvöldum tóku um 106 þúsund manns þátt í mótmælunum í dag víðs vegar um Frakkland.
Fréttaveita Reuters segir þetta vera vandræðamál fyrir Macron sem hefur hrósað aðgerðum stjórnar sinnar í loftslagsmálum en er á móti gagnrýndur fyrir að vera ekki í tengslum við hinn almenna borgara og hafa vinsældir hans dvínað í skoðanakönnunum.