Réttargæslumaður dyravarðarins sem er lamaður fyrir neðan háls eftir líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Shooters þann 26. ágúst fer fram á rúmlega 100 milljónir króna í miskabætur frá árásarmanninum. Sá sætir ákæru fyrir tvær líkamsárásir sama kvöld í miðbæ Reykjavíkur.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru um síðustu helgi um það leyti sem árásarmaðurinn hafði verið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Lögreglu er ekki heimilt að halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur án útgáfu ákæru. Maðurinn er sakaður um að hafa brotið 218. grein almennra hegningarlaga, aðra málsgrein, sem fjallar um vísvitandi líkamsárásir sem stórfellt líkamstjón hlýst af. Varðar brot á lögunum allt að sextán ára fangelsi.
Sigurður Örn Hilmarsson, skipaður réttargæslumaður dyravarðarins, staðfestir í samtali við Vísi að hafa lagt bótakröfuna fram vegna varanlegs og mjög alvarlegs heilsutjóns.
Landsréttur framlengdi, í kjölfar útgáfu ákærunnar, gæsluvarðhald yfir manninum til 14. desember. Dyravörðurinn kærði úrskurð úr héraði til Landsréttar en í úrskurðinum kemur fram að dyravörðurinn hafi hlotið margþætt brot á fimmta hálshryggarlið og lamast fyrir neðan háls.
Félagi árásarmannsins sætir jafnframt ákæru héraðssaksóknara fyrir aðild að annarri líkamsárás með ákærða sama kvöld.

