Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson náði sögulegri þrennu í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gær þegar hann fór á kostum í sigri á Breiðabliki.
Elvar Már skoraði 40 stig í leiknum en hann var einnig með 11 fráköst og 12 stoðsendingar. Elvar náði þrennunni á undan því að hann náði fertugasta stigi sínu en með því stendur hann einn á palli meðal íslenskra körfuboltamanna.
Elvar er fyrsti Íslendingurinn í úrvalsdeildinni sem nær að skora 40 stig á sama tíma og hann nær þrennu.
Elvar var þó dálítið frá metinu en það á Bandaríkjamaðurinn Warren Peebles. Peebles skoraði 58 stig fyrir Val í leik á móti KR árið 1999 en að auki var hann með 10 fráköst og 12 stoðsendingar.
Elvar er í fimmta sætinu á þessum lista en Brenton Birmingham var ekki kominn með íslenskt ríkisfang þegar hann skoraði 43 stig í þrennuleik með Grindavík á móti Snæfelli árið 2000.
Íslenska stigametið í þrennu átti Eysteinn Bjarni Ævarsson og var það orðið næstum því þriggja ára gamalt. Eysteinn skoraði 29 stig í þrennu sini með Hetti á móti Þór 6. mars 2016.
Hér fyrir neðan má sjá þessi tvö met yfir flest skoruð stig í þrennuleik.
Flest stig í þrennu í úrvalsdeild karla í körfubolta:
58 stig - Warren Peebles, Val á móti KR 19.2.1999 (10 fráköst, 12 stoðsendingar)
43 stig - Brenton Birmingham, Grindavík á móti Snæfelli 3.3.2000 (11 fráköst, 10 stoðsendingar)
42 stig - Richard Williams, FSu á móti Snæfelli 14.2.2010 (11 fráköst, 12 stoðsendingar)
42 stig - Tobin Carberry, Hetti á móti ÍR 25.2.2016 (14 fráköst, 10 stoðsendingar)
40 stig - Elvar Már Friðriksson, Njarðvík á móti Breiðabliki 13.12.2018 (11 fráköst, 12 stoðsendingar)
39 stig - Stevie Johnson, Haukum á móti Grindavík 12.12.2002 (15 fráköst, 10 stoðsendingar)
38 stig - Brenton Birmingham, Grindavík á móti Keflavík 14.12.1999 (10 fráköst, 10 stoðsendingar)
Íslenskir leikmenn með 25 stig og þrennu í úrvalsdeild karla í körfubolta:
40 stig - Elvar Már Friðriksson, Njarðvík á móti Breiðabliki 13.12.2018 (11 fráköst, 12 stoðsendingar)
29 stig - Eysteinn Bjarni Ævarsson, Hetti á móti Þór Þorl. 6.3.2016 (10 fráköst, 10 stoðsendingar)
28 stig - Pavel Ermolinski, KR á móti Snæfelli 23.1.2014 (12 fráköst, 12 stoðsendingar)
27 stig - Eyjólfur Ásberg Halldórsson, Skallagrími á móti Snæfelli 19.2.2017 (10 fráköst, 10 stoðsendingar)
26 stig - Kári Jónsson, Haukum á móti FSu 5.2.2016 (11 fráköst, 10 stoðsendingar)
25 stig - Pavel Ermolinski, KR á móti KFÍ 15.11.2010 (18 fráköst, 12 stoðsendingar)
