Viðskipti innlent

Einn sjóður með nærri helming aflandskróna

Hörður Ægisson skrifar
Umfang aflandskrónueigna nemur í dag um þremur prósentu af landsframleiðslu.
Umfang aflandskrónueigna nemur í dag um þremur prósentu af landsframleiðslu. Fréttablaðið/Ernir
Fjárfestingarsjóðir í stýringu bandaríska fyrirtækisins Loomis Sayles eiga samanlagt nærri helming allra af­landskrónueigna, sem nema um 84 milljörðum króna, en ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp sem mun heimila eigendum slíkra krónueigna að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi.

Í fjárhagsupplýsingum frá sjóðastýringarfyrirtækinu má sjá að sex skuldabréfasjóðir Loomis Sayles áttu í lok október íslensk ríkisskuldabréf og innstæður í krónum að jafnvirði samtals um 35 milljarða. Þær eignir, sem eru skilgreindar sem af­landskrónur og hafa verið læstar undir höftum hér á landi frá setningu fjármagnshafta haustið 2008, eru fyrst og fremst í stýringu tveggja sjóða – Strategic Income Fund og Bond Fund – og er um helmingur þeirra bundinn í íslenskum ríkisskuldabréfum á gjalddaga í febrúar 2019 og október 2022.

Heildarumfang aflandskrónueigna, sem námu um 40 prósentum af landsframleiðslu fyrir tíu árum, hefur minnkað verulega á undanförnum árum vegna aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, meðal annars með fjárfestingarleið Seðlabankans 2012 til 2015 og gjaldeyrisútboði fyrir aflandskrónueigendur í júní 2016. Þá minnkaði aflandskrónu­stabbinn um 100 milljarða króna í mars 2017 þegar Seðlabankinn náði samkomulagi við hóp aflandskrónueigenda um að kaupa krónueignir þeirra á genginu 137,5 gagnvart evru.

Loomis Sayles hafnaði tilboði Seðlabankans, rétt eins og þegar sjóðir fyrirtækisins gerðu þegar þeir tóku ekki þátt í aflandskrónuútboði bankans þar sem eigendum slíkra krónueigna bauðst að selja þær á genginu 190 krónur fyrir hverja evru. Ljóst er að sjóðirnir hafa hagnast á þeirri ákvörðun en við lokun markaða í gær var gengi krónunnar um 140 gagnvart evru. Umfang af­landskróna nemur í dag um 84 milljörðum, eða um 3 prósentum af landsframleiðslu, og eru sjóðir Loomis Sayles því eigendur að lágmarki um 42 prósenta allra slíkra krónueigna.

Fram kom í tilkynningu frá Seðlabankanum og fjármála- og efnahagsráðuneytinu að þær auknu heimildir sem frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra fela í sér fyrir aflandskrónueigendur séu þríþættar. Í fyrsta lagi er um að ræða almenna heimild fyrir alla af­landskrónueigendur til að losa eignir til að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja á reikning erlendis. Í öðru lagi heimild fyrir aflandskrónueigendur, sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008, til að losa þær eignir undan takmörkunum laganna. Í þriðja lagi er heimild fyrir einstaklinga til að taka út allt að 100 milljónir króna af reikningum sem eru háðir sérstökum takmörkunum.

Ljóst er að gengi krónunnar mun gefa verulega eftir ef stór hluti af­lands­krónueigenda kýs að skipta eignunum yfir í erlendan gjaldeyri. Seðlabankinn hefur hins sagt að hann sé vel í stakk búinn til að bregðast við skammtímabreytingum á gjaldeyrismarkaði en hreinn forði bankans nemur um 700 milljörðum króna.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur sagt að hann óttist ekki þann möguleika að eigendur af­lands­króna muni flytja eignir sínar úr landi yfir skamman tíma. Í viðtali við RÚV á föstudag benti Már á að þarna væru annars vegar aðilar sem væru með laust fé á bundnum reikningum og hins vegar sjóðir sem eru með fjárfestingar í verðbréfum þar sem töluvert væri eftir af líftíma þeirra. „Við vitum að þeir stærstu í seinni hópnum vilja ekkert fara og það geta verið tugir milljarða sem eru þannig og hitt er ekki allt í einu, þannig að þetta verður allt mjög viðráðanlegt,“ sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×