Körfubolti

Mamma og pabbi voru í stúkunni þegar Martin snéri aftur með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Getty/Manuel Blondeau/Icon
Íslenski körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson snéri aftur inn á körfuboltavöllinn í gær þegar lið hans Alba Berlin vann 108-96 sigur á Giessen 46ers í síðasta heimaleik liðsins á árinu 2018.

Martin hefur verið að glíma við meiðsli og hafði ekkert spilað með Alba Berlin síðan í lok október.

Foreldrar Martins, þau Hermann Hauksson og Margrét Elíasdóttir, voru hjá syninum um jólin og fengu heldur betur flotta jólagjöf frá stráknum í þessum leik.

Þau voru líka heldur betur sátt með sinn mann. „Gjörsamlega geggjuð upplifun, þvílík stemning og okkar maður magnaður. Algjörlega ólýsanlegt, þetta er svo stórt og mikið,“ sagði Margrét á fésbókinni og Hermann var ekki síður ánægður:

„Frábær leikur hjá okkar manni og við í stúkunni. Geggjuð stemmning og umgjörð,“ skrifaði Hermann. Það var ekki leiðinlegt fyrir alla fjölskylduna að sjá enn frekar sönnun á því hversu frábærlega Martin hefur náð að stimpla sig inn í þetta sterka Alba Berlin lið.

Meiðslin voru smá áfall og þau héldu honum lengi frá. Hann vann hinsvegar vel í sínum málum og var heldur betur tilbúinn þegar græna ljósið kom.





Martin átti algjöran stórleik í sínum fyrsta leik í tvo mánuði. Martin spilaði reyndar „bara“ í 20 mínútur en nýtti þær frábærlega. Hann var með 19 stig, 3 fráköst og 3 stioðsendingar en alls var hann með með 23 framlagsstig.

Martin hitti úr 75 prósent skota sinna (6 af 8) og setti niður öll sex vítin sín. Hann var eftir leikinn valinn maður leiksins. Þetta er líka það mesta sem hann hefur skorað í einum leik í þýsku bundesligunni.

Eftir leikinn sagði Martin að hann myndi örugglega finna fyrir einhverjum harðsperrum á morgun en það væri allt í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×