Öryggisráðið fundaði í dag vegna efnavopnaárásar sem gerð var á bæinn Douma í úthverfi Damaskus í Sýrlandi í fyrradag. Stjórn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta hefur verið kennt um árásina sem banaði að minnsta kosti 40 manns.
Sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, Vassily Nebenzia, sagði á fundi Öryggisráðsins í dag að efnavopnaárásin hefði verið „sviðsett.“ Þá sagði hann að hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Sýrlandi myndi hafa „alvarlegar afleiðingar“ í för með sér.
Nebenzia bauð einnig alþjóðlegu rannsóknarteymi að fljúga á vettvang í Sýrlandi strax á þriðjudag og kanna hvort um hefði verið að ræða efnavopnaárás. Rússar, auk bandamanna sinna í sýrlenska stjórnarhernum, hafa hingað til meinað rannsakendum að kanna aðstæður.

„Það er verið að halda fundi, það er verið að vega og meta mikilvægar ákvarðanir,“ sagði Haley.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn í dag að stjórn hans hefði miklar áhyggjur vegna árásarinnar í Douma. Þá útilokaði hann ekki hernaðaðgerðir í Sýrlandi, að því er segir í frétt Washington Post, og lofaði auk þess að taka ákvörðun um gagnaðgerðir innan 24 eða 48 klukkustunda.