Innlent

Gæti reynst erfitt að komast að eldsupptökum í Mosfellsbæ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má er húsið í Mosfellsbæ rústir einar.
Eins og sjá má er húsið í Mosfellsbæ rústir einar. vísir/ernir
Lítið timburhús á einni hæð við Reykjabraut í Mosfellsbæ brann til kaldra kola í nótt. Lárus Petersen, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að líklega verði erfitt að komast að eldsupptökum þar sem húsið sé einfaldlega horfið.

 

Nú er verið að hreinsa til á vettvangnum svo brak og bárujárn úr húsinu fjúki ekki um allt í storminum sem nú geisar á höfuðborgarsvæðinu.

Útkallið barst slökkvliðinu rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Engin önnur hús eru við götuna en aðstæður á vettvangi voru engu að síður erfiðar fyrir slökkviliðsmennina þar sem nokkuð hvasst var orðið á svæðinu. Fimm manna fjölskylda bjó í húsinu.

„Þau sleppa naumlega út því þau heyra í reykskynjaranum. Þau heyra píp frammi og þá er þar allt alelda svo þau ná að brjóta sér leið út um gluggann,“ segir Lárus.

Húsið var alelda þegar slökkviliðið kom á staðinn og var fjölskyldan þá komin út. Voru þau flutt á slysadeild Landspítalans með reykeitrun og minniháttar meiðsl.

Lárus segist ekki þekkja það hversu lengi eldurinn hafði logað þegar slökkviliðið kom á vettvang. Eldsupptök liggja ekki fyrir og eins og áður segir gæti orðið erfitt að komast að því þar sem húsið sé farið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×