Handbolti

Þórey Rósa: Slóvenar eru lið sem hentar okkur ágætlega

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir á að baki 80 A-landsleiki fyrir Ísland.
Þórey Rósa Stefánsdóttir á að baki 80 A-landsleiki fyrir Ísland. vísir/ernir
Þórey Rósa Stefánsdóttir, annar fyrirliða íslenska landsliðsins í handbolta, er bjartsýn á möguleika liðsins gegn Slóveníu, en liðin mætast í mikilvægum leik í undankeppni EM í Frakklandi í Laugardalshöll í kvöld.

„Ég er spennt fyrir því að spila aftur landsleik, það er orðið svolítið síðan síðast og það er alltaf gaman að spila landsleik hérna heima,“ sagði Þórey Rósa á blaðamannafundi HSÍ fyrir leikinn í kvöld.

„Við erum klárlega minna liðið í þessum leik. Þær hafa verið að gera góða hluti á síðustu mánuðum og ári, en ég held samt sem áður að þetta sé lið sem hentar okkur ágætlega og ég tel okkur hafa góðar lausnir og bíð spennt eftir að sjá hvernig það kemur út.“

Íslenska liðið verður að ná í sigur í þessum leik ætli það sér að komast í lokakeppnina. Liðið tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum og situr á botninum án stiga.

„Ef við ætlum okkur á næsta stórmót þá verðum við að gjöra svo vel og vinna þessa leiki. Það er klárlega spark í rassinn að standa sig.“

Ísland fékk stóran skell á móti frændum okkar Dönum í síðasta leik í keppninni í október þar sem liðið tapaði með 15 mörkum í Laugardalshöllinni og skoraði aðeins fjögur mörk í fyrri hálfleik. Þórey sagðist ekki halda að það tap sitji neitt í íslensku stelpunum.

„Við tókum góða ferð til Þýskalands og Slóvakíu og náðum að þjappa okkur vel saman og spila góða leiki, í bland við slæman leik, og ég vona að við tökum góðu hlutina með okkur.“

Liðið kom saman á sunnudaginn, en síðasta umferð Olís deildar kvenna fór fram á laugardag. Það var því stuttur tími sem landsliðsþjálfarinn Axel Stefánsson hafði til að stilla saman strengi og undirbúa liðið.

„Já, auðvitað [hefur það áhrif], en það eru öll liðin í sömu stöðu. Þetta snýst um að spila vel með sínu félagsliði líka og vera í góðu standi þegar þú mætir í landsliðið,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19:30 í Laugardalshöll og er frítt inn á leikinn fyrir alla aldurshópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×