Erlent

Nýnasisti einn í framboði hjá repúblikönum í Illinois

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjördæmið sem Jones býður sig fram í nær meðal annars yfir hluta Chicago-borgar.
Kjördæmið sem Jones býður sig fram í nær meðal annars yfir hluta Chicago-borgar. Vísir/Getty
Eini frambjóðandinn í forvali Repúblikanaflokksins í einu kjördæma Illinois-ríkis fyrir þingkosningarnar í haust er nýnasisti sem lýsir helförinni sem „stærstu og svörtustu lygi sögunnar“.  Formaður repúblikana í Illinois fordæmir frambjóðandann sem verður engu að síður að líkindum sjálfkjörinn.

Þriðja kjördæmi Illinois fyrir þingkosningarnar nær meðal annars yfir hluta Chicago-borgar og nokkur úthverfi hennar. Arthur Jones er sá eini sem hefur boðið sig fram í forvali repúblikana en frestur til að tilkynna um framboð rann út í desember.

Á vefsíðu sinni hampar Jones fána Suðurríkjanna sem hann lýsir sem tákni um stolt hvíts fólks og andspyrnu þess. Chicago Sun-Times segir að Jones hafi tilheyrt flokki nýnasista og lýsir honum sem gyðingahatara og hvítum þjóðernissinna.

„Í fyrsta lagi þá er ég að bjóða mig fram til þings, ekki til kanslara Þýskalands. Allt í lagi. Fyrir mér er helförin það sem ég hef sagt: hún er alþjóðleg fjárkúgunarsvikamylla,“ segir Jones við blaðið.

Stilltu ekki upp frambærilegum frambjóðanda

Engar líkur eru á því að Jones vinni sigur í sjálfum þingkosningunum en demókratar eru í meirihluta í kjördæminu, að því er segir í frétt Washington Post. Það er raunar ástæðan fyrir því að Jones er einn í framboði. Sigur demókrata í kjördæminu er talinn svo öruggur að flokkurinn hafði ekki fyrir því að finna vænlegan frambjóðanda.

Framboð Jones er engu að síður vandræðalegt fyrir Repúblikanaflokkinn. Í yfirlýsingu við Chicago Sun-Times fordæmir Tim Schneider, formaður stjórnar flokksins í Illinois, frambjóðandann.

„Repúblikanaflokkur Illinois og landið okkar á engan stað fyrir nasista eins og Arthur Jones. Við erum algerlega á móti rasískum skoðunum hans og framboði hans til opinbers embættis, þar á meðal í þriðja kjördæmi,“ segir Schneider.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×