Emil Hallfreðsson var einn af bestu mönnum vallarins í frábæru jafntefli Íslands og Argentínu í fyrsta leik á HM í fótbolta í dag.
„Þetta var æðisleg tilfinning að hafa klárað eitt stig út úr því hvernig staðan var, 1-1 með Messi á vítapunktinum. Frábært hjá Hannesi að verja þetta og mér fannst við hafa átt þetta skilið,“ sagði Emil í viðtali við Tómas Þór Þórðarson í Moskvu eftir leikinn.
Sergio Aguero kom Argentínu yfir í fyrri hálfleik og Alfreð Finnbogason jafnaði leikinn aðeins fjórum mínútum seinna. Birkir Bjarnason var hársbreidd frá því að koma Íslendingum yfir snemma leiks.
„Við gáfum allt í þetta, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við fengum nokkur færi og þeir fengu voða lítil svæði. Taktíkin okkar heppnaðist alveg ótrúlega vel.“
„Í seinni hálfleik var kannski smá þreyta, við vorum búnir að eyða ótrúlegri orku í því að verjast. Vissum að það er kannski svolítið langt í markið, en ég held að leikurinn okkar hafi gengið ágætlega upp.“
Emil var einn af þeim sem stóð upp úr í leiknum og var líklega að eiga einn sinn besta leik í íslensku landsliðstreyjunni. Hann var þó nokkuð hávær undir hrósi blaðamanna á staðnum.
„Mér finnst ég vera búinn að eiga ágætisleiki í riðlakeppninni, en allt í lagi, segjum það bara. Mér fannst ég loka vel á þá, var alltaf með Messi fyrir aftan mig og þurfti alltaf að vera að pæla í honum. Það er svolítið fyndið og smá súrrealískt á milli, en maður gleymir því í hita leiksins.“
„Ég er bara ágætlega sáttur með mína frammistöðu,“ sagði Emil Hallfreðsson.

