Erlent

Kveðst mjög mótfallinn Brexit-áætlun Theresu May

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Barnier segir ekki hægt að aðskilja reglur um viðskipti með vörur annars vegar og þjónustu hins vegar.
Michel Barnier segir ekki hægt að aðskilja reglur um viðskipti með vörur annars vegar og þjónustu hins vegar. Vísir/Getty
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB þegar kemur að útgöngu Bretlands úr sambandinu, kveðst mjög mótfallinn lykilköflum í tillögum Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um hvernig framtíðarviðskiptasambandi Bretlands og ESB skuli háttað eftir Brexit.

May sagði í morgun að hún myndi ekki gera málamiðlanir þegar kæmi að Brexit-áætlun stjórnar sinnar, sem kennd er við sveitasetur hennar, Chequers.

Í frétt BBC er haft eftir Barnier að það þjóni ekki hagsmunum sambandsins að vera með sameiginlegt regluverk ESB og Bretlands þegar kæmi að viðskiptum með vörur, en ekki þjónustu. „Okkar eigið vistkerfi hefur vaxið áratugum saman. Það er ekki hægt að leika sér með það og velja einstaka hluta,“ segir Barnier og vísar þar í að erfitt sé að aðskilja viðskipti með vörur og þjónustu nú á dögum. Allt sé þetta nú samofið.

Í viðtali við þýska blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung er haft eftir Barnier að hugmyndir May „myndu þýða endalok hins sameiginlega markaðar og evrópska verkefnisins.“

Pragmatísk lausn fyrir báða aðila

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar ítrekar hins vegar að áætlun May sé nákvæm og pragmatísk sem muni virka vel fyrir báða málsaðila.

Frestur til að semja um framtíðarviðskiptasamband Bretlands og ESB, eftir útgöngu, rennur út í október þó að Barnier hefur látið hafa það eftir sér að honum megi seinka til nóvember. Bretland hyggst formlega ganga úr sambandinu þann 29. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×