Umfjöllun: KR - Valur 1-1 | Tíu Valsmenn héldu út í Vesturbænum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valsmenn fagna.
Valsmenn fagna. Vísir/Eyþór
KR og Valur gerðu jafntefli í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Valsmenn sitja enn á toppi Pepsi deildar karla en KR-ingar eru að dragast úr toppbaráttunni.

Kennie Knak Chopart kom KR-ingum yfir strax á sjöttu mínútu og voru KR-ingar grimmir í byrjun leiksins. Undir blálok fyrri hálfleiksins náði Patrick Pedersen að jafna metin eftir skelfileg mistök frá Beiti Ólafssyni og Albert Watson. Beitir missti boltann frá sér eftir erfiða sendingu frá Watson.

Patrick nýtti sér það og skoraði stöngin inn. Í seinni hálfleiknum missa Valsmenn Eið Aron útaf eftir að hann fékk að sjá sitt annað gula spjald leiksins. Þá gátu KR-ingar komið framar á völlinn en það var kannski ekki að sjá á vellinum að heimamenn væru einum leikmanni fleiri. Leikurinn fór að lokum 1-1.

Af hverju fór leikurinn jafntefli ? KR-ingar geta nagað sig í handabakið eftir slæm mistök. Heimamenn einum leikmanni fleiri í töluverðan tíma en þeir ná ekki að nýta sér þann mun. KR-ingar eru einfaldlega ekki að klára sína andstæðinga og geta alls ekki sætt sig við öll þessi jafntefli, þó það sé kannski enginn skömm að gera jafntefli við toppliðið.

Hverjir stóðu upp úr? Patrick Pedersen var flottur í liði Vals og það sama má segja um Kristinn Frey í liði Vals. Í liði KR var Kennie Chopart duglegur og skoraði fínt mark. Pálmi Rafn traustur á miðjunni en fáir leikmenn stóðu sig mjög vel í kvöld.

Hvað gekk illa? Það vantaði að klára sóknirnar hjá báðum liðum og lykilsendingar í raun oft á tíðum lélegar hjá KR og Val. Menn náðu ekki að skapa sér  stórhættuleg færi í þessum leik og það var ástæðan fyrir aðeins tveimur mörkum í kvöld.

Hvað er framundan? Valsmenn halda áfram á toppnum og virðist liðið ætla að verja Íslandsmeistaratitilinn. Næst á dagskrá er Rosenborg í Meistaradeildinni og þá verður liðið að spila töluvert betur. KR-ingar þurfa að gera heldur betur mikið til að koma sér í baráttu um Evrópusæti og maður sér það ekki gerast.

Rúnar: Gríðarlegt samskiptaleysi í vörninni„Við áttum að vinna þennan leik, enginn spurning,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir leikinn.

„Við vorum betra liðið allan leikinn fyrir utan kannski fimm mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks.“

Rúnar segir að KR-ingar hafi einfaldlega gefið Valsmönnum markið á silfurfati.

„Gríðarlegt samskiptaleysi í vörninni og þeir fá bara gefins mark. Þetta á ekki að gerast og er búið að vera saga okkar í sumar. Við höfum ekki efni á þessu, það hefur enginn efni á svona.“

Hann segist hafa viljað sjá KR-inga skapa fleiri færi í síðari hálfleiknum.

„Það vantar oft á tíðum bara herslumuninn hjá okkur og þetta verður að fara detta betur.“

Ólafur: Ánægður með stigið„Ég er ánægður með þessi úrslit. Við vorum kannski ekki að spila okkar besta leik en við vorum duglegir og lögðum mikið á okkur,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

„Það var hugmyndin að keyra vel á KR liðið strax í upphafi síðari hálfleiksins. Það gekk ekki eftir. Þetta var stundum erfitt hjá okkur í kvöld og sérstaklega eftir að við vorum orðnir einum manni færri.“

Óli segir að liðið hafi verið duglegt varnarlega í kvöld. 

„Pétur er okkar besti dómari og ég treysti honum til að taka réttar ákvarðanir og þetta hefur líklega verið bara rétt,“ segir Ólafur um seinna gula spjaldið á Eið Aron en hann fór útaf með rautt í kjölfarið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira