Erlent

Eiginmaðurinn ákærður fyrir morðið á Janne Jemtland

Atli Ísleifsson skrifar
Umfangsmikil leit stóð yfir að Janne Jemtland í nokkra daga eftir að tilkynnt var um hvarf hennar. Lík hennar fannst svo 13. janúar.
Umfangsmikil leit stóð yfir að Janne Jemtland í nokkra daga eftir að tilkynnt var um hvarf hennar. Lík hennar fannst svo 13. janúar. Norska lögreglan/Getty
Saksóknarar í Noregi hafa ákært Svein Rishovd Jemtland fyrir að hafa skotið eiginkonu sína Janne til bana að kvöldi 29. desember á síðasta ári. Hann á svo að hafa varpað líki hennar út í ána Glomma.

Í ákæru segir að hinn 47 ára Svein hafi skotið 36 ára eiginkonu sína í höfuðið. Verdens Gang hefur eftir lögmanni Svein að hann neiti sök í málinu.

Málið vakti gríðarlega athygli í Noregi í kringum síðustu áramót. Svein og Janne Jemtland höfðu verið í veislu í félagsheimili í Velrom, í um átta kílómtra fjarlægð frá heimili sínu umrætt kvöld. Þau tóku leigubíl saman heim um klukkan tvö eftir miðnætti. Svein tilkynnti sjálfur um hvarf eiginkonu sinnar.

Umfangsmikil leit

Dagana eftir hvarfið fór fram umfangsmikil leit að Janne. Þann 4. janúar síðastliðinn fann lögregla blóð úr Janne á Fagerlundvegen í Brumunddal eftir ábendingu frá vegfaranda. Blóð úr Janne fannst svo einnig um hálfum kílómetra frá fyrri staðnum.

Lík hennar fannst svo í ánni Glomma við Eidfoss-brúna þann 13. janúar, um áttatíu kílómetrum frá heimili þeirra. Á eiginmaðurinn að hafa fest rafhlöðu við líkið í þeim tilgangi að láta það sökkva til botns. Verdens Gang segir Svein hafa viðurkennt að hafa átt þátt í dauða Janne en að um óhapp hafi verið að ræða.

Í frönsku útlendingahersveitinni

Svein Jemtland var starfandi í frönsku útlendingahersveitinni í um tvo áratugi, meðal annars á Balkanskaga á tíunda áratugnum. Árið 1991 var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir líkamsárás. Hann og Janne gengu í hjónaband árið 2006.

Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Heiðmerkur eftir þrjár vikur.


Tengdar fréttir

Telja sig vita hvernig Janne lést

Norska lögreglan telur sig vita hvernig Janne Jamtland lést. Talið er að lík hennar hafi fundist í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×