Enski boltinn

„Frábær samvinna hjá dómurunum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jon Moss ræðir við Eddie Smart í leiknum í dag. Þeir fá stjörnu í kladdann hjá Gallagher
Jon Moss ræðir við Eddie Smart í leiknum í dag. Þeir fá stjörnu í kladdann hjá Gallagher vísir/getty
Tottenham fékk tvær vítaspyrnur á tíu mínútum í leik sínum við Liverpool á Anfield í dag. Báðir dómarnir hafa verið mikið á milli tannanna á fólki eftir leikinn en dómarasérfræðingur Sky Sports segir dómara leiksins hafa átt frábæran dag.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli þar sem þrjú mörk voru skoruð og tvær vítaspyrnur dæmdar á síðasta korterinu.

Fyrri vítaspyrnan kom á 86. mínútu. Loris Karius felldi Harry Kane í teignum og um það er lítið deilt. Hins vegar vilja margir meina að Kane hafi verið rangstæður og því hefði ekki átt að dæma vítaspyrnu.

Jonathan Moss, dómari leiksins, benti fyrst á punktinn en ræddi svo lengi vel við aðstoðardómarann Eddie Smart áður en hann ákvað að dómurinn skyldi standa.

„Kane er rangstæður og Dejan Lovren á tækifæri á því að hreinsa boltann. Hann gerir það ekki en kom þó klárlega við boltann. Boltinn berst svo til Kane sem er nú orðinn réttstæður samkvæmt reglunum,“ sagði Dermot Gallagher, fyrrum dómari og núverandi sérfræðingur Sky Sports.

„Þetta var frábær dómur að mínu mati. Þetta tók smá tíma en þeir komust að réttri niðurstöðu. Lovren hittir boltann illa og Kane er því réttstæður.“

Seinni vítaspyrnan var svo ekki dæmd af Moss heldur Smart aðstoðardómara. Þá braut Virgil van Dijk á Eric Lamela innan vítateigs. Moss dæmdi ekkert og ætlaði að láta leikinn halda áfram en Smart dæmdi vítaspyrnuna.

„Það eru svo margir inni í vítateig að sjónarhorn Moss er ekki nógu gott. Það er enginn vafi á því að þetta var vítaspyrna og er annað dæmi um frábæra samvinnu á milli Moss og Smart,“ sagði Gallagher.

Margir stuðningsmenn Liverpool hafa verið mjög óánægðir með þessa vítaspyrnudóma, sérstaklega þó þann síðari þar sem Kane skoraði jöfnunarmarkið úr þeirri spyrnu í blálokin. Hins vegar virðast margir sérfræðinganna vera vissir um að þetta hafi verið réttur dómur.



 













 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×