Erlent

Sveipaður ítalska fánanum með nýnasistatákn í andlitinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Luca Traini var handtekinn í gær.
Luca Traini var handtekinn í gær. Vísir/Epa
Luca Traini, 28 ára ítalskur karlmaður, var handtekinn í gær fyrir að hafa skotið á innflytjendur í ítalska bænum Macerata. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu er Traini gallharður þjóðernissinni og þá er hann með nýnasistatákn húðflúrað í andlit sér.

Traini skaut á vegfarendur á nokkrum stöðum í bænum Macerata á Ítalíu í gær, meðal annars nálægt lestarstöðinni, en árásin virðist hafa beinst að hörundsdökkum innflytjendum.

„Hann keyrði um í bíl sínum og þegar hann kom auga á svart fólk þá skaut hann það,“ var haft eftir Marcello Mancini, íbúa í Macerata, á sjónvarpsstöð fréttaveitunnar Reuters. Sex særðust í árásinni í gær, þar af einn alvarlega.

Bauð sig fram fyrir þjóðernisflokk

Í frétt Reuters segir að Traini hafi verið sveipaður ítalska fánanum þegar vopnaðir lögregluþjónar gerðu atlögu að honum í kjölfar árásarinnar. Þá segja vitni að Traini hafi heilsað að fasistasið áður en hann var handtekinn og hrópað „Lengi lifi Ítalía!“ Traini bauð sig fram fyrir hið hægrisinnaða Norðurbandalag (Lega Nord) í kosningum í fyrra, án þess þó að hljóta nokkurt atkvæði, en flokkurinn er afar neikvæður í afstöðu sinni til innflytjenda.

Þá kemur fram í frétt Verdens Gang að húðflúrið, sem Traini er með fyrir ofan annað augað, sé hið svokallaða Wolfangel-tákn, eða úlfakrókur upp á íslensku. Nasistar gerðu táknið að sínu í seinni heimsstyrjöldinni og þá hafa nýnasistahópar í Bandaríkjunum og Evrópu notað það í merkjum sínum síðustu áratugi.

Talið morðmál sem er nú til rannsóknar í bænum hafi verið kveikjan að árás Traini. Hann skaut m.a. á fólk við Via Spalato og Via dei Velini en á þeim slóðum hefur lögregla rannsakað morð á átján ára stúlku sem fannst látin síðastliðinn miðvikudag. Karlmaður frá Nígeríu er í haldi lögreglu vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×