Fótbolti

Norsk fótboltakona verður sú launahæsta í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg gerði samning til 2021.
Ada Hegerberg gerði samning til 2021. Twitter/@AdaStolsmo
Franska félagið Lyon ætlar ekki að missa aðalmarkaskorarann sinn frá sér og hefur gert við hana nýjan einstakan samning.

Norska ríkissjónvarpið, NRK, segir frá því á síðu sinni að norski framherjinn Ada Hegerberg sé nú orðin launahæsta fótboltakona heims.

Nýr samningur Ada Hegerberg og Lyon er til ársins 2021 og þótt að NRK fá engan tengdan henni eða félaginu til að staðfesta þessar fréttir um launahlutann opinberlega þá eru heimildir NRK sagðar vera traustar.





Bandaríska fótboltakonan Alex Morgan og Marta frá Brasilíu hafa hingað til fengið stærstu samningana í kvennafótboltanum en ekki mikið lengur.

Alex Morgan fékk 3,2 til 3,8 milljónir í mánaðarlaun hjá Lyon og Marta hefur verið með um 38 milljónir í árslaun. NRK heldur því fram að Ada Hegerberg muni fá talsvert hærri laun í nýja samningi sínum við Lyon.





 

„Lyon er besta félagið sem ég gæti spilað fyrir. Ég hef verið hér í fjögur ár, hef gefið hundrað prósent fyrir liðið og klúbbinn og er nú að uppskera fyrir það,“ sagði Ada Hegerberg við NRK.

Ada Hegerberg vann Meistaradeildina þriðja árið í röð á dögunum og setti nýtt markamet í Meistaradeildinni með því að skora fimmtán Meistaradeildarmörk á leiktíðinni.

Hegerberg hefur alls unnið tíu stóra titla með Lyon þar af franska meistaratitilinn fjögur ár í röð.

Hegerberg hefur skorað 168 mörk í 132 leikjum með Lyon í öllum keppnum þar af 33 mörk í 30 leikjum í Evrópukeppni og 110 mörk í 85 deildarleikjum.

Ada Hegerberg ætti líka að geta einbeitt sér að Lyon því hún er hætt að gefa kost á sér í norska landsliðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×