Fótbolti

Byssu miðað á stjóra West Ham og eiginkonu hans

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Manuel Pellegrini, stjóri West Ham, lenti í leiðinlegu atviki ásamt eiginkonu sinni er þau voru að fara út að borða í heimalandi sínu, Síle.

Er hjónin voru á leiðinni inn á veitingastaðinn veittust að þeim menn með byssur. Þeir tóku veskið af eiginkonunni og hoppuðu svo upp í Porsche-jeppa sem þeir höfðu einnig stolið.

Lögreglan brást fljótt við og elti þjófana. Þjófarnir voru aftur á móti klókir því þeir köstuðu út naglabelti sem sprengdi öll dekkin á lögreglubílnum.

Þeir komust því á brott og eru ófundnir. Pellegrini hrósaði samt lögreglunni fyrir sitt framlag og óskaði eftir því að hún fengi meira fé til þess að sinna erfiðu starfi í landinu.

Pellegrini var ráðinn til West Ham á dögunum. Hann hefur þjálfað í Kína síðustu tvö ár en var þar á undan stjóri Man. City. Hann hefur einnig þjálfað Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×