Í dag hefst fréttaröð fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þar sem rýnt verður í hrunið á tíu ára afmæli þess.
Ítarlegar fréttir verða í kvöldfréttum Stöðvar 2 næstu tíu daga sem og fréttaskýringar á Vísi.
Hrunið hafði mikil áhrif á þjóðina sem heild, sem og líf einstakra landsmanna. Farið verður yfir þetta með fjölmörgum viðtölum þar sem fólk lítur í baksýnisspegilinn, rifjar upp atburði hrunsins og metur hvernig staðan er í dag.
Verður meðal annars verður rætt við Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands og ýmsa fræðimenn sem rannsakað hafa orsakir og afleiðingar hrunsins. Einnig er rætt við fólkið í landinu sem mótmælti í Búsáhaldabyltingunni og missti mikið vegna hrunsins.
Fyrsta frétt þessarar umfjöllunar sem fer í loftið í kvöld snýr að ótrúlegum vexti bankanna fyrir hrun sem urðu svo stórir að það jafngilti tífaldri landsframleiðslu Íslands.
