Um 33 prósentum af birtingafé Pipar/MEDIA var varið í auglýsingar í vefmiðlum á síðasta ári. Til samanburðar var hlutfallið 27 prósent árið 2016. Þar á eftir komu dagblöð með 24 prósenta hlutdeild og sjónvarp með 23 prósent, en hlutdeild þeirra miðla lækkaði nokkuð á milli ára. Fór hlutdeild dagblaðsins úr 28 í 24 prósent og sjónvarpsins úr 25 í 23 prósent. Þá stóð útvarpsmiðillinn í stað með um 17 prósent birtingafjár.
Rannveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Pipar/MEDIA, segir auglýsingamarkaðinn breytast hratt um þessar mundir. Staða vefbirtinga sé að styrkjast jafnt og þétt á kostnað prent- og sjónvarpsmiðla.
„Þróunin hefur verið stigvaxandi í þessa átt undanfarin ár. Hækkandi hlutdeild stafrænna birtinga hjá okkur er í takt við það sem er að gerast úti í heimi.
Allur vettvangur fyrir stafræna markaðssetningu hefur farið stigvaxandi hjá okkur sem og annars staðar undanfarin ár. Á næstu árum er því spáð að stafrænar birtingar verði komnar yfir 50 prósent af heildarbirtingum. Hvort sú þróun muni eiga við hérlendis mun svo koma í ljós en þróunin er klárlega í þá átt,“ segir hún.

„Sama er uppi á teningnum í mörgum löndum í kringum okkar, þar sem netið er þegar orðið stærsti miðillinn og hefur á mörgum stöðum nú þegar tekið fram úr sjónvarpsauglýsingum sem hafa verið stærsti vettvangurinn erlendis hingað til,“ nefnir hún.
Þess ber að geta að umræddar tölur um skiptingu birtingafjár hjá Pipar/MEDIA í fyrra eru meðaltalstölur. Þær sýna því ekki fullkomna skiptingu birtingafjárins.
Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.