Erlent

Árás gerð á skrifstofur Barnaheilla

Atli Ísleifsson skrifar
Borgin Jalalabad er í grennd við pakistönsku landamærin.
Borgin Jalalabad er í grennd við pakistönsku landamærin. Vísir/AFP
Árás var gerð í morgun á skrifstofur Save the Children hjálparsamtakanna, sem hér á landi kallast Barnaheill. Árásin var gerð í afgönsku borginni Jalalabad og er ljóst að ellefu hafa slasast hið minnsta. BBC greinir frá.

Svo virðist sem bílsprengja hafi verið sprengd fyrir utan innganginn að skrifstofunni og fregnir berast nú af því að byssumenn hafi ruðst inn á skrifstofurnar og þaðan heyrist skothríð og hvellir.

Á fréttamyndum má sjá íbúa í hverfinu flýja árásarstaðinn en enginn hópur hefur enn lýst ábyrgð árásarinnar á hendur sér.

Jalalabad er í grennd við pakistönsku landamærin og Talíbanar gera oft árásir í borginni. Þá er vitað að liðsmenn ISIS eru einnig fjölmennir í borginni og hafa verið allt frá árinu 2015.

Árásir hafa verið tíðar í Afganistan síðustu vikur og á dögunum gerðu Talíbanar mannskæða árás á hótel í höfuðborginni í Kabúl þar sem 22 hótelgestir voru myrtir.

Að neðan má sjá færslu Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sem nú stýrir samtökunum. Hún segist enn bíða fregna af vettvangi en að áhersla sé lögð á að tryggja öryggi starfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×