Fanginn var fluttur á sjúkrahús slasaður en miðað við það hversu hrottafengin árásin var slapp hann furðu vel; með brotnar tennur og illa marinn - talsvert slasaður. Verið er að greina meiðsl hans.
Erlendur fangi sem varð fyrir árásinni
Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða erlendan fanga sem ekki hefur nein tengsl við íslenska undirheima svo vitað sé. Þannig er ólíklegt að um hefnd eða óuppgerðar sakir sé að ræða. Og ekki eru heldur um að ræða það að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir kynferðisbrot þannig að flest bendir til þess að um sé að ræða að árásin tengist innanhússuppgjöri.

Starfsemi lágmörkuð tímabundið
En, þegar Vísir spurði Páll Winkel fangelsismálastjóra nánar út atvikið og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til segir hann fangelsismálayfirvöld líta þetta mál mjög alvarlegum augum.
„Það er alveg á hreinu að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva ofbeldi í fangelsum. Fyrsta verkefni þegar svona gerist er að kalla til lögreglu. Og samhliða þá skapa ró og öryggi í fangelsinu. Við gerum það. Meðal annars með því að lágmarka starfsemi tímabundið, eftir svona ofbeldi. Í því felst meðal annars að loka íþróttahúsi og aflýsa kennslu, já. Og hafa aðstæður þannig að það sé hægt að tryggja öryggi annarra fanga og starfsmanna ekki síður.“
En, samkvæmt heimildum Vísis þá er veruleg óánægja meðal fanga vegna þessarar tilhögunar?
„Já. Og það er skiljanlegt en þetta er nauðsynlegt. Okkar fyrsta verkefni er að tryggja öryggi og við munum gera það.“
Stórhættulegir menn á ferð
En, er þá hægt að tala um neyðarástand á Litla Hrauni?
„Ég myndi ekki segja það. En það er áhyggjuefni að upp komi gróf ofbeldismál í fangelsunum.
Hafa ber í huga að þarna eru saman komnir einstaklingar, menn sem eiga það sameiginlegt að hafa brotið reglur samfélagsins og eru sumir töluvert hættulegir.“Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis var árásin með þeim hrottafengnari sem sést hafa innan veggja fangelsismúra. Páll vill ekki tjá sig um það í sjálfu sér, segir að rannsókn standi yfir en staðfestir að það hafi gerst í gær að hópur fanga hafi veist að öðrum fanga í íþróttahúsi Litla Hrauns og létu höggin dynja á fanganum í talsvert langan tíma. Margir tóku þátt í árásinni.
Eru atvik sem þessi algeng innan veggja íslenskra fangelsa?
„Nei, ekki meira en hjá þjóðunum sem við berum okkur saman við. En, það er ofbeldi í fangelsum eins og annars staðar í samfélaginu. Við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir það,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.